Erlent

FBI tekur málin í sínar hendur í Oregon

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ammon Bundy í dýraathvarfinu í gær þar sem vopnaðir menn ráða ríkjum.
Ammon Bundy í dýraathvarfinu í gær þar sem vopnaðir menn ráða ríkjum. skjáskot
Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, stýrir nú lögregluaðgerðum í Oregon-ríki þar sem hópur vopnaðra manna hefur náð skrifstofum dýraathvarfs á sitt vald.

FBI sendi frá sér yfirlýsingu þar sem segir að embættið vinni nú með „Fógetanum í Harney County, ríkislögreglunni í Oregon og öðrum löggæsluyfirvöldum,“ til að tryggja farsælar málalyktir.

Þungvopnaðir menn réðust inn á skrifstofurnar í gær en þeir segja markmið sitt vera að berjast gegn harðstjórn og alræði bandarísku alríkisstjórnarinnar. Þeir hafa hvatt aðra föðurlandsvini til að ganga til liðs við sig.

Sjá einnig: Vopnaðir menn ögra alríkisstjórninni

Rauði punkturinn gefur nokkurn veginn til kynna staðsetningu dýraathvarfsins.google maps
Þeir vilja að landsvæði sem eru í ríkiseigu verði færð í hendur yfirvalda í Oregon og vonast til að aðgerðir þeirra muni blása öðrum sama sinnis byr undir báða vængi.

Í samtali við blaðamann Oregonian sagði Ammon Bundy, einn hinna vopnuðu, að markmið þeirra væri ekki að beita ofbeldi en ekki væri hægt að útiloka vopnuð átök ef yfirvöld freistuðu þess að brjóta sér leið inn í athvarfið.

Ekki er vitað hversu margir menn eru í athvarfinu en fjölmiðlar í Oregon fullyrða að þeir skipti tugum og séu þungvopnaðir. Ryan Bundy, bróðir Ammons, neitaði að svara til um fjöldann þegar hann var inntur eftir því við þarlenda fjölmiðla í gærkvöld.

„Markmið okkar er að skila fólkinu hér réttindum sínum svo það geti nýtt landið og auðlindirnar,“ sagði Ryan Bundy. „Við erum hér til að koma á reglu, við erum hér til að endurvekja réttindi fólks og það getur farið fram auðveldlega og án átaka,“ sagði Bundy.

Ammon bróðir hans tísti sambærilegum skilaboðum í nótt.

Fógetinn í Harney County sagði í tilkynningu í dag að Bundy-bræðurnir og vopnuðu samherjar þeirra væru í Oregon á fölskum forsendum. „Þeir sögðust hafa komið til Harney County til að ganga til liðs við vopnaða stuðningsmenn bænda á svæðinu. Sannleikurinn er sá að þeir ætluðu sér að steypa yfirvöldum hér af stóli með það að markmiði að koma á byltingu í Bandaríkjunum,“ sagði fógetinn Dave Ward.


Tengdar fréttir

Vopnaðir menn ögra alríkisstjórninni

Hópur vopnaðra manna hefur náð á sitt vald skrifstofum dýraathvarfs í Oregon. Mennirnir segja markmið sitt vera að berjast gegn harðstjórn og hvetja föðurlandsvini til að ganga til liðs við sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×