Erlent

Vopnaðir menn ögra alríkisstjórninni

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Hópur vopnaðra manna hefur náð á sitt vald skrifstofum dýraathvarfs í Oregon-ríki í Bandaríkjunum. Mennirnir segja markmið sitt vera að berjast gegn harðstjórn og alræði bandarísku alríkisstjórnarinnar og hvetja föðurlandsvini til að ganga til liðs við sig.

Mennirnir réðust inn á skrifstofurnar stuttu eftir samstöðufund í bænum Burns í Oregon þar sem hópur fólks kom saman til að sýna feðgunum Dwight og Steven Hammond stuðning.

Feðgunum hefur verið skipað að gefa sig fram við lögreglu til að ljúka afplánun fimm ára fangelsisdóms sem þeir hlutu árið 2012 í tengslum við íkveikju á landi í ríkiseigu. Leiðtogar hópsins eru bræðurnir Ammon og Ryan Bundy.

Þeir eru þekktir andófsmenn og eru synir nautgripabóndans Clive Bundy sem leiddi hóp vopnaðra manna sem bauð alríkislögreglunni birginn árið 2014 i Las Vegas í kjölfar lagabreytinga um beitilönd.

Mennirnir sem standa á bak við yfirtökuna í dýraathvarfinu í Oregon núna eru þekktir fyrir róttækar skoðanir í garð bandarísku alríkisstjórnarinnar og saka hana um harðstjórn. Ekki er vitað hversu margir menn eru í athvarfinu en fjölmiðlar í Oregon fullyrða að þeir skipti tugum og séu þungvopnaðir.

Mennirnir hvetja föðurlandsvini til að grípa til vopna og halda til Oregon. Í samtali við blaðamann Oregonian sagði Ammon Bundy að markmið þeirra væri ekki að beita ofbeldi en ekki væri hægt að útiloka vopnuð átök ef yfirvöld freistuðu þess að brjóta sér leið inn í athvarfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×