Erlent

80 féllu í loftárásum í Sýrlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Særðir eru fluttir á milli heilbrigðisstofnana í einkabílum þar sem sjúkrabílar hafa ekki undan.
Særðir eru fluttir á milli heilbrigðisstofnana í einkabílum þar sem sjúkrabílar hafa ekki undan. Vísir/AFP
Stjórnvöld í Sýrlandi eru sögð hafa fellt 80 manns og sært um 200 í loftárásum á markað í bænum Douma. Stjórnarherinn gerir reglulega árásir á bæinn með loftárásum og með því að varpa tunnusprengjum.

Douma er mikilvægur bær fyrir uppreisnarmennina sem halda honum þar sem hann er nærri höfuðborg Sýrlands Damascus. Bærinn er notaður af uppreisnarmönnum til að gera árásir á Damascus og því er hann vinsælt skotmark loftárása.

Heilbrigðisstarfsmenn í Douma eru sagðir hafa ekki undan fjölda særðra og er fólk flutt í einkabílum á milli stofnanna.

Á vef BBC segir að hundurð óbreyttra borgara hafi fallið í loftárásunum undanfarið. Samkvæmt Sameinuðu Þjóðunum hafa rúmlega 220 þúsund manns látið lífið og meira en níu milljónir manna hafa þurft að flýja heimili sín vegna borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi. Hún hefur nú staðið yfir í fjögur ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×