Erlent

Stórt skref stigið í samskiptum Kúbu og Bandaríkjanna

Þórgnýr Albert Einarsson skrifar
Fáni Kúbu stendur nú milli fána Króatíu og Kýpur í byggingu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna.
Fáni Kúbu stendur nú milli fána Króatíu og Kýpur í byggingu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna. Nordicphotos/afp
Bandaríkjamenn opnuðu sendiráð sitt í Kúbu og Kúbumenn opnuðu sendiráð sitt í Bandaríkjunum í gær þegar formlegu stjórnmálasambandi milli landanna var aftur komið á. Stjórnmálasambandi var slitið árið 1961 í kjölfar byltingar Fidels Castro.

Vegna opnunar sendiráðanna var fáni Kúbumanna settur upp í byggingu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna innan um hóp fána þeirra ríkja sem reka sendiráð í Bandaríkjunum. Kúbverski fáninn fær nú að standa á milli fána Króatíu og Kýpur.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tók á móti Bruno Rodriguez, utanríkisráðherra Kúbu, í tilefni af opnun sendiráðanna í gær.

Rodriguez dró kúbverska fánann að hún við hið nýja sendiráð Kúbumanna í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. Á meðan kölluðu viðstaddir „Fidel! Fidel!“ og „lifi Raul!“ til að hylla Fidel og Raul Castro, bræðurna sem hafa stjórnað Kúbu frá 1959.

Þróunin í átt að opnun sendiráða var nokkuð hröð en Barack Obama Bandaríkjaforseti og Raul Castro, forseti Kúbu, funduðu saman í Panama í apríl síðastliðnum eftir að tilkynnt hafði verið um vinnu að bættum samskiptum ríkjanna í desember. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×