Erlent

Løkke fær umboð til viðræðna

stefán rafn sigurbjörnsson skrifar
Lars Løkke mun að öllum líkindum mynda minnihlutastjórn.
Lars Løkke mun að öllum líkindum mynda minnihlutastjórn. Fréttabllaðið/AFP
Margrét Danadrottning veitti Lars Løkke Rasmussen, leiðtoga Venstre, umboð til að mynda nýja ríkisstjórn í Danmörku.

Leiðtogar allra stjórnmálaflokkanna hafa fundað með drottningunni undanfarna daga og veitti hún Løkke umboðið eftir að leiðtogar danska Þjóðarflokksins, Frjálslynda bandalagsins og Íhaldsflokksins mæltu með því að Løkke fengi að fara með stjórnarmyndunarumboð.

Stjórnmálaskýrendur í Danmörku telja líklegt að Løkke muni mynda minnihlutastjórn með stuðningi nokkurra hægriflokka þar sem flokkarnir eru sammála um nokkur lykilatriði á borð við hvernig skuli hátta opinberum útgjöldum.

Danski Þjóðarflokkurinn vann óvænt mikinn kosningasigur síðastliðinn fimmtudag en hann er nú annar stærsti flokkurinn á eftir Jafnaðarmannaflokknum.

Þjóðarflokkurinn hefur þegar lagt fram fjögur skilyrði fyrir setu í ríkisstjórn en flokkurinn vill að ríkisstjórnin taki upp skeptískari Evrópustefnu, innleiði landamæraeftirlit, takmarki innflutning og móttöku flóttamanna auk þess að auka opinber útgjöld um 0,8 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×