Erlent

Meint brot Julians Assange eru að fyrnast: Svíar vilja nú hitta Assange í London

Julian Assange Hefur hafst við í sendiráði Ekvadors í London í tvö og hálft ár.
Julian Assange Hefur hafst við í sendiráði Ekvadors í London í tvö og hálft ár. Fréttablaðið/EPA
Í ágúst verða fimm ár liðin frá því að tvær konur í Svíþjóð sökuðu Julian Assange um kynferðisbrot. Þar með fyrnast hin meintu brot, samkvæmt sænskum lögum.

Þetta er, að sögn sænska saksóknarans Marianne Ny, meginástæða þess að nú fellst hún á að hann verði yfirheyrður í London.

„Skoðun mín hefur alltaf verið að gæði yfirheyrslunnar yrðu minni ef hún færi fram í sendiráði Ekvadors í London,“ segir Ny í yfirlýsingu. „Nú þegar tíminn skiptir öllu hef ég því talið nauðsynlegt að fallast á slíka annmarka.“

Assange hefur dvalið í sendiráði Ekvadors frá því í ágúst árið 2012. Allan þann tíma hefur hann boðist til þess að svara spurningum sænska saksóknarans þar.

Fyrir nokkrum vikum skýrðu breskir fjölmiðlar frá því að lögregluvörður við sendiráðið, allan sólarhringinn frá því í ágúst 2010, hefði kostað breska ríkið tíu milljónir punda. Það samsvarar ríflega tveimur milljörðum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×