Erlent

Heiðursgesti bannað að tala

guðsteinn bjarnason skrifar
Utanríkisráðherra Svíþjóðar var boðið til fundarins sem heiðursgesti.
Utanríkisráðherra Svíþjóðar var boðið til fundarins sem heiðursgesti. fréttablaðið/EPA
Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, segir að Sádi-Arabía hafi komið í veg fyrir að hún flytti ræðu á ráðherrafundi Arababandalagsins, sem haldinn var í Kaíró í Egyptalandi í gær.

Wallström hugðist nota tækifærið til að leggja áherslu á mannréttindi og fagna sérstaklega þeim árangri sem náðst hefur í réttindabaráttu kvenna. Sádi-Arabía brást hins vegar hart við afstöðu sænskra stjórnvalda til lýðræðis og mannréttinda.

Í viðtali við fréttastofuna TT segist Wallström hafa fengið þær skýringar að Sádi-Arabía hafi lagst gegn því að hún flytti ræðu sína vegna þess hve mikla áherslu Svíþjóð hefur lagt á lýðræði og mannréttindi: „Það er skammarlegt að eitt ríki hafi komið í veg fyrir þátttöku mína.“

Wallström hafði verið boðið til ráðstefnunnar sem heiðursgesti. Hún hefur gagnrýnt þær „miðaldarefsingar“ sem sádiarabíski bloggarinn Raef Badaví hefur mátt þola fyrir að hafa sýnt íslamskri trú lítilsvirðingu. Fyrir þann glæp var hann dæmdur til tíu ára fangelsis og til þess að þola þúsund svipuhögg.

Stutt er þangað til umdeildur samningur um vopnasölu frá Svíþjóð til Sádi-Arabíu rennur út. Í viðtali við sænska ríkissjónvarpið segist Wallström ekki vera viss um það hvort atvikið í Kaíró muni hafa áhrif á endurnýjun samningsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×