Innlent

Fleiri stjórnarþingmenn vilja slíta viðræðum

Sveinn Arnarsson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson er með áform um að leggja fram þingsályktun um afturköllun ESB-tillögunnar.
Gunnar Bragi Sveinsson er með áform um að leggja fram þingsályktun um afturköllun ESB-tillögunnar. fréttablaðið/pjetur
Flestir þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem Fréttablaðið náði tali af í gær töldu afar líklegt að þeir myndu styðja tillögu um að afturkalla umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Hins vegar eru skiptar skoðanir um málið meðal þingmannanna.

Þrír þingmenn flokksins sem Fréttablaðið náði tali af í gær voru ekki fylgjandi tillögu utanríkisráðherra og töldu hana ekki koma á réttum tímapunkti.

Tillaga til þingsályktunar þess efnis að draga til baka umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu verður að öllum líkindum lögð fram á vorþingi.

Tillagan er á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi vetur og hefur forsætisráðherra sagt að tillagan komi til efnislegrar meðferðar Alþingis.

Líklegt þykir að allir þingmenn Framsóknarflokksins séu hlynntir tillögu utanríkisráðherra um viðræðuslit.

Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks segir að gerð verði skýrsla um aðildarviðræður, sem gefin var út í október 2013, og að ekki verði haldið áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ekki náðist í Ragnheiði Ríkharðsdóttur sem lengi hefur verið hlynnt því að aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði lokið með samningi og hann borinn undir þjóðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×