Erlent

„Ég gerði ekki neitt“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hér sést Samuel DuBose í bíl sínum og vinstri hönd Ray Tensing.
Hér sést Samuel DuBose í bíl sínum og vinstri hönd Ray Tensing. Vísir/skjáskot
Lögregluþjónn í Cincinnati hefur verið leystur frá störfum og ákærður fyrir morð á ökumanni þann 19. júlí síðastliðinn. Er það í fyrsta skipti sem laganna vörður hefur verið ákærður fyrir að myrða einhvern við skyldustörf í ríkinu. Hann á yfir sér 15 ára til lífstíðarlanga fangelsisvist verði hann fundinn sekur.

Myndband sem tekið var á myndavél í búningi lögreglumannsins Ray Tensing gefur til kynna að hinn óvopnaði Samuel DuBose hafi verið skotinn í kjölfar yfirvegaðra orðaskipta þeirra tveggja.

Atvikið átti sér stað eftir að Tensing hafði beðið hinn 43 ára gamla Samuel DuBose að nema staðar er hann ók eftir þjóðvegi í ríkinu.

Lögreglumaðurinn Ray Tensing.Vísir/AP
Að sögn talsmanns lögreglunnar sá lögreglumaðurinn að bílnúmeraplötu vantaði á bíl DuBose og hafi Tensing því ákveðið að veita honum eftirför.

Eftir að hann stöðvaði bílinn hafi ökumaðurinn ekki getað framvísað ökuskírteini heldur rétti lögreglumanninnum fulla flösku af áfengi.

Af myndbandinu að dæma virðist ekki hafa komið til handalögmála þeirra á milli eða að DuBose hafi ögrað lögreglumanninum með nokkrum hætti. Þá virðist bíllinn ekki keyra af stað fyrr en eftir að ökumaðurinn hefur verið skotinn.

Það er talið skipta miklu máli fyrir væntanlegan úrskurð í málinu en lögregluþjónninn Tensing sagði að hann hafi dregist á eftir bílnum og því neyðst til að skjóta DuBose. 

Ökumaðurinn lést af sárum sínum og er talið að skot sem hann hlaut í höfuðið hafi dregið hann til dauða. Hinstu orð Samuel DeBose voru: „Ég gerði ekki neitt“

Myndbandið má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×