Bergsveinn Ólafsson, fyrirliði Fjölnis í Pepsi-deild karla, samdi í dag við Íslandsmeistara FH til þriggja ára, en skrifað var undir á blaðamannafundi í Kaplakrika í dag. Vísir greindi frá félagaskiptunum fyrr í dag.
Samningur Bergsveins hjá Fjölni átti að renna út síðar í mánuðinum en FH-ingar fengu leyfi til að ræða við miðvörðinn sterka í byrjun vikunnar.
Sjá einnig:Bergsveinn: FH heillaði meira en KR
Bergsveinn hefur leikið allan sinn feril með uppeldisfélaginu Fjölni og á að baki 116 leiki í Pepsi-deild, 1. deild og bikar fyrir Grafarvogsliðið. Hann hefur verið lykilmaður í uppgangi liðsins undanfarin ár, en Fjölnismenn enduðu í sjötta sæti Pepsi-deildarinnar í sumar.
Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH, tilkynnti á sama blaðamannafundi að Heimir Guðjónsson verður áfram með liðið og Guðlaugur Baldursson honum til aðstoðar.
Þá verður Atli Viðar Björnsson áfram í herbúðum FH-inga.
Bergsveinn samdi við FH til þriggja ára | Heimir verður áfram
Tómas Þór Þórðarson skrifar
