Erlent

Tveggja barna stefna lögfest í Kína

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Börn að leik í Guangzhou í Kína.
Börn að leik í Guangzhou í Kína. vísir/afp
Kínverska þingið festi í gær svokallaða tveggja barna stefnu í lög og mun nýja stefnan taka gildi þann fyrsta janúar næstkomandi. Mega kínversk pör þá eignast tvö börn.

Stefnan tekur við af einbirnisstefnunni sem hafði verið í gildi undanfarin 35 ár. Breytingin er viðbragð við hækkandi meðalaldri kínversku þjóðarinnar og fækkun fólks á vinnumarkaði.

Kínversk stjórnvöld telja að stefnubreytingin muni skila sér í 30 milljón fleiri manns á vinnumarkaði fram til ársins 2050.

Sameinuðu þjóðirnar höfðu áður spáð því að Kínverjum á aldrinum 15 til 59 ára fækki um sjö prósent á árunum 2010 til 2030.

Óvíst er hvort stefnubreytingin beri tilætlaðan árangur segir í frétt CNN um málið. Áratugir líði þar til barnasprenging skili sér í fleiri vinnandi höndum. Þá sé alls óvíst að Kínverjar á barneignaaldri vilji eignast fleiri ein eitt barn þrátt fyrir breytta löggjöf. Fæðingartíðni í Kína hafi lækkað af ástæðum sem ekki endilega tengjast einbirnisstefnunni. Aðgerðin væri of lítilvæg og kæmi of seint hefur AP eftir Cai Yong, prófessor í félagsfræði við Norður-Karólínuháskóla.

Búist er við að stefnubreytingin skili sér í 23 milljónum viðbótarfæðinga fram á miðja þessa öld. Kínverjum muni fjölga næstu 15 árin og verða 1,43 milljarðar árið 2030 í stað 1,42 milljarða yrði engin stefnubreyting. Í kjölfarið fari Kínverjum svo fækkandi.

Mannréttindasamtökin Amn­esty International gagnrýndu stefnuna í gær. Ríkið hafi engan rétt til þess að skipta sér af því hve mörg börn fólk eigi. Aðgerðir Kínverja væru ófullnægjandi og stefnan ýtti enn undir mannréttindabrot. Kínverskar konur ættu áfram á hættu á að vera neyddar í fóstureyðingu eða þvingaðar til að nota getnaðarvarnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×