Erlent

Móðir Teresa nær því að verða tekin í tölu dýrlinga

Atli Ísleifsson skrifar
Móðir Teresa verður tekin í tölu dýrlinga í september á næsta ári.
Móðir Teresa verður tekin í tölu dýrlinga í september á næsta ári. Vísir/Getty
Móðir Teresa hefur komist skrefi nær því að verða tekin í tölu dýrlinga en Frans páfi lýsti því yfir að hún hafi framkvæmt annað kraftaverk.

Páfagarður þarf að ákvarða að maður hafi framkvæmt tvö kraftaverk til að sá eigi möguleika á að komast í hóp dýrlinga.

Nefnd Páfagarðs ákvað fyrir þremur dögum síðan að hún hafi framkvæmt kraftaverk með því að lækna brasilískan mann af heilaæxli.

Jóhannes Páll páfi II tók Móður Teresu í tölu hinna blessuðu, sem er fyrsta skrefið í að hún verði gerð að dýrlingi, árið 2003.

Reuters hefur eftir talsmanni Vatikansins að Móðir Teresa verði tekin í tölu dýrlinga í september á næsta ári.

Móðir Teresa var þekkt fyrir starf sitt í fátækrahverfum Kalkútta í Indlandi og hlaut hún friðarverðlaun Nóbels árið 1979. Hún lést árið 1997, 87 ára að aldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×