Enski boltinn

Þrjú skot í tréverkið og Everton fékk bara eitt stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romelu Lukaku fagnar jöfnunarmarki sínu.
Romelu Lukaku fagnar jöfnunarmarki sínu. vísir/getty
Everton og Crystal Palace gerði 1-1 jafntefli í í lokaleik 15. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta á Goodison Park í kvöld.

Crystal Palace komst yfir á 76. mínútu en Romelu Lukaku tryggði Everton jafnteflið.

Romelu Lukaku hefur þar með skorað ellefu mörk í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni en hann var mjög nálægt því að skora fleiri.

Romelu Lukaku átti meðal annars skot í stöng og slá á marki Crystal Palace í leiknum. Crystal Palace átti sín færi í leiknum en það var þó lið Everton sem var nær sigrinum í kvöld.

Romelu Lukaku komst næst því að skora í fyrri hálfleik þegar hann átti skot í stöngina á 21. mínútu. Lukaku var líka nálægt því að skora á 32. mínútu.

Bæði félög fengu færi til að skora í fyrri hálfleiknum þótt að Everton hafi fengið bestu færin.

Everton var sterkara liðið í seinni hálfleiknum og fékk áfram betri færi en leikmenn Palace-menn ógnuðu þó alltaf.

Connor Wickham  fékk færi til að skora í rétt mark í fyrri hálfleiknum en hann var næstum því búinn að skora sjálfsmark í þeim síðari þegar skalli hans fór í slána á eigin marki.

Wayne Hennessey varði vel frá Everton-manninum Tom Cleverley á 66. mínútu og Everton var líklegra til að skora.

Það var hinsvegar Scott Dann sem skoraði fyrsta mark leiksins á 76. mínútu þegar hann skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu Jason Puncheon.

Romelu Lukaku átti skot í slána og niður á 79. mínútu og náði síðan að jafna metin á 81. mínútu með skoti af stuttu færi eftir undirbúning Gerard Deulofeu og sendingu frá Gareth Barry.

Everton-menn héldu áfram að pressa og ógna meira á lokamínútunum en voru jafnframt heppnir að fá ekki dæmda á sig vítaspyrnu þegar Ramiro Funes Mori virtist fella Jordon Mutch.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×