Enski boltinn

Martínez: Lukaku er einstakur leikmaður

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lukaku fagnar 50. marki sínu fyrir Everton.
Lukaku fagnar 50. marki sínu fyrir Everton. vísir/getty
Belgíski framherjinn Romelu Lukaku skoraði sitt 50. mark í búningi Everton þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Crystal Palace á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Lukaku hefur verið sjóðheitur að undanförnu og skorað sjö mörk í síðustu sex leikjum sínum. Hann er næstmarkahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar í vetur með 11 mörk en aðeins Jamie Vardy hefur skorað fleiri mörk (14).

Eftir leikinn á Goodison Park í gær hrósaði Roberto Martínez, knattspyrnustjóri Everton, Lukaku í hástert.

„Romelu hefur verið mjög stöðugur á þessu ári. Hann hefur skorað 26 eða 27 mörk sem er býsna vel af sér vikið. Þegar þú skoðar framfararnir sem hann hefur sýnt á árinu sérðu að hann er einstakur leikmaður,“ sagði Martínez um hinn 22 ára gamla Lukaku.

„Hann hefði getað skorað þrennu en við sköpuðum mörg opin færi gegn góðu varnarliði.“

Lukaku þurfti aðeins 100 leiki til að skora mörkin 50 sem hann hefur gert fyrir Everton. Þrjátíu og sex þessara marka hafa komið í úrvalsdeildinni, þrjú ensku bikarkeppninni, þrjú í deildarbikarnum og átta í Evrópudeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×