Enski boltinn

Ólíkt Mourinho þá gengur allt upp hjá stjóra kvennaliðs Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho og Emma Hayes.
Jose Mourinho og Emma Hayes. Vísir/Getty
Það er ólíkt farið með knattspyrnustjórum karla- og kvennaliðs Chelsea í fótbolta. Á sama tíma og það gengur ekkert upp hjá karlaliðinu þá fær knattspyrnustjóri kvennaliðsins hver verðlaunin á fætur öðrum.

Chelsea-liðin eru bæði ríkjandi Englandsmeistarar en það er orðið nokkuð ljóst að karlaliðið ver ekki titilinn sinn þótt að tímabilið sé ekki einu sinni hálfnað.

Jose Mourinho hefur horft upp á lið sitt tapa 8 af fyrstu fimmtán leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og framundan er leikur í kvöld upp á líf eða dauða í Meistaradeildinni.

Margir enskir fjölmiðlar eru á því að Mourinho verði að vinna leikinn á móti Porto í kvöld og komast í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar svo að hann fái að halda starfi sínu sem knattspyrnustjóri Chelsea.

Emma Hayes gerði kvennalið Chelsea að tvöföldum meisturum á síðustu leiktíð en liðið endaði meðal annars tveggja ára sigurgöngu Katrínar Ómarsdóttur og félaga hennar í Liverpool.

Auk þessa titla þá var Emma Hayes valin á dögunum besti stjóri ensku kvennadeildarinnar en í dag bætti hún við verðlaunum sem þjálfari ársins í kvennaboltanum hjá enska knattspyrnusambandinu og sérstökum verðlaunum fyrir besta afrek ársins.

Kvennalið Chelsea var að vinna sín fyrstu stóru verðlaun á árinu 2015 en hin 38 ára gamla Emma Hayes tók við liðinu árið 2012.

Emma Hayes hafði áður verið aðstoðarmaður hjá kvennaliði Arsenal á árunum 2006 til 2008 (Arsenal vann tvöfalt öll árin) og þjálfað bandaríska liðið Chicago Red Stars frá 2008 til 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×