Erlent

Búið að bera kennsl á einn árásarmanninn

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Lögreglumenn á vettvangi skammt frá Bataclan tónleikahúsinu
Lögreglumenn á vettvangi skammt frá Bataclan tónleikahúsinu vísir/getty
Búið er að bera kennsl á einn af mönnunum sem réðst inn í Bataclan tónleikahúsið í gærkvöldi en sá var franskur ríkisborgari. Hann hafði sprengt sig í loft upp en fingraför hans fundust í gagnagrunnum. 

Bloomberg fréttastofan hefur eftir heimildamanni sínum að lögreglan vinni nú í því að elta uppi vitorðsmenn hinna látnu en ekki hefur verið gefið upp hve margir þeir eru. Auk franska ríkisborgarans sem búið er að bera kennsl á fannst sýrlenskt vegabréf skammt frá líki eins árásarmannanna. Þetta eru fyrstu sjálfsmorðssprengjuárásirnar í sögu Frakklands.

Hryðjuverkasamtökin ISIS hafa lýst ábyrgð á hendur sér en yfirvöld í Frakklandi höfðu haft auga með Frakkanum unga sem búið er að bera kennsl á. Francois Hollande hefur kallað árásina stríðsyfirlýsingu í viðtölum og hefur þriggja daga þjóðarsorg verið lýst yfir í landinu.

Tala látinna er sem stendur í 128 en á þriðja hundrað liggja særðir á sjúkrahúsum borgarinnar, þar af áttatíu í lífshættu.

Uppfært 16/11/15: Í upphaflegu útgáfu fréttarinnar var haft eftir erlendummiðlum að árásarmennirnir hefðu verið á aldrinum fimmtán til átján ára gamlir. Það reyndist ekki rétt. Er beðist velvirðingar á því.


Tengdar fréttir

Sungu þjóðsönginn einróma er þeir yfirgáfu leikvanginn

Stuðningsmenn landsliða Frakklands og Þýskalands, sem voru samankomnir á Stade de France þegar árásarmennirnir í París frömdu ódæði sín í nótt, sameinuðust í söng þegar þeim var sagt að yfirgefa leikvanginn.

ISIS lýsir yfir ábyrgð

Samtökin hafa gefið út yfirlýsingu þar sem þau segjast hafa ráðist á „höfuðborg viðurstyggðar og spillingar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×