Íslenski boltinn

Besta aðsókn í Pepsi-deildinni í fjögur ár þrátt fyrir hrun í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
FH-ingar mættu best á leikina í sumar.
FH-ingar mættu best á leikina í sumar. Vísir/Ernir
Áhorfendur mættu betur á leiki Pepsi-deildarinnar í fótbolta í sumar heldur en undanfarin þrjú tímabil en þetta kemur fram í samantekt á heimasíðu KSÍ.

Alls mættu 146.138 áhorfendur á 132 leiki Pepsi-deildar karla í sumar sem þýðir að meðalaðsóknin var 1107 áhorfendur.

Þetta er besta meðalaðsókn síðan sumarið 2011 þegar 1122 áhorfendur mættu að meðaltali á leikina að meðaltali.

Þessi góða aðsókn er athyglisverð ekki síst að hún hrundi í lok mótsins en aðeins 701 áhorfandi mætti að meðaltali á síðustu fjórar umferðirnar og áhorfendur fækkuðu með hverri umferð frá 18. umferðinni í lok ágústmánaðar.

Íslandsmeistarar FH-inga fengu flesta áhorfendur að meðaltali á heimaleiki sína eða 1925 í leik. Það komu líka flestir áhorfendur að meðaltali á útileiki FH-liðsins.

Eyjamenn voru með langlélegustu aðsóknina en það var verst mætt á útileiki Víkinga. Það var þrefalt betur mætt á heimaleiki FH en á heimaleiki ÍBV í Pepsi-deildinni í sumar.

Eyjamenn fengu aldrei yfir 900 manns á heimaleiki sína en það komu aldrei færri en 1200 manns á heimaleiki FH-liðsins. Hér fyrir neðan má sjá lista yfir meðalaðsóknina á heimaleiki liðanna.

Flestir áhorfendur mættu á leiki fyrstu umferðar Pepsi-deildar karla að þessu sinni en þá komu 10.305 áhorfendur á leikina sex.  Fæstir mættu á leiki lokaumferðarinnar eða 3.131 talsins.

Þrjár síðustu umferðirnar voru jafnframt þær þrjár umferðir með lægstu meðalaðsóknina á öllu Íslandsmótinu í ár.

Meðalaðsókn á heimaleiki liðanna tólf:

1. FH 1925

2. KR 1421

3. Breiðablik 1374

4. Víkingur 1133

5. Fylkir 1102

6. Valur 1095

7. Stjarnan 1026

8. Fjölnir 982

9. ÍA 914

10. Keflavík 863

11. Leiknir 803

12. ÍBV 647




Fleiri fréttir

Sjá meira


×