Erlent

Gera árásir á ISIS frá Tyrklandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Herflugvélar Bandaríkjanna á flugbraut Incirlik herstöðvarinnar.
Herflugvélar Bandaríkjanna á flugbraut Incirlik herstöðvarinnar. Vísir/AFP
Herflugvélar Bandaríkjanna flugu í fyrsta sinn í dag frá Incirlik herstöðinni í Tyrklandi. Flugvélarnar voru notaðar til árása gegn ISIS í Sýrlandi, en Tyrkir gáfu Bandaríkjunum leyfi til að nota stöðina fyrir um mánuði síðan.

Með því að fljúga frá Tyrklandi spara flugmenn Bandaríkjanna gífurlegan tíma sem og peninga við loftárásir sínar og geta verið fljótari að bregðast við aðstæðum í Sýrlandi.

Á vef Guardian segir að viðræður séu enn í gangi um þátttöku Tyrklands í aðgerðum gegn ISIS. Tyrkir vilja stofna öruggt svæði innan landamæra Sýrlands, þar sem hægt væri að koma flóttafólki fyrir. Um 1,8 milljón Sýrlendinga hafa flúið til Tyrklands.

Aðgerðir Tyrkja hafa að mestu verið gegn Kúrdum hingað til og Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segir að þar verði ekkert lát á. Kúrdar og Tyrkir sömdu um vopnahlé árið 2013 eftir um 30 skæruhernað Kúrda. Sá skæruhernaður virðist nú vera að hefjast að nýju og hafa margar árásir verið gerðar innan Tyrklands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×