Erlent

Trump segir konur vera „frábærar“

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump mælist með mikið fylgi í skoðanakönnunum.
Donald Trump mælist með mikið fylgi í skoðanakönnunum. Vísir/AFP
Bandaríski auðjöfurinn Donald Trump varði í það samband sem hann á við konur og sagði þær „frábærar“. Trump neitaði hins vegar að biðjast afsökunar á árásum sínum á fréttamann Fox News.

Trump hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að hafa gefið óbeint í skyn að spyrillinn Megyn Kelly hafi verið sérstaklega aðgangshörð í kappræðum Repúblikana á fimmtudaginn þar sem hún hafi verið á blæðingum.

Í samtali við fjölda bandarískra fjölmiðla í dag sagðist Trump hins vegar vera í „frábæru sambandi“ við konur í viðskiptalífinu. „Þær standa sig stórkostlega vel og ég greiði þeim stórkostlega há laun.“

Í frétt BBC kemur fram að auðjöfurinn hafi sagt umræddar konur græða pening fyrir hans hönd. „Þær geta sjálfar hagnast. Og í fjölda tilfella eru þær mjög hæfileikaríkar og geta verið með drápseðli í viðskiptum.“

Á meðan á kappræðum fimmtudagsins stóð neitaði Trump að biðjast afsökunar á orðum sínum um konur, en hann hefur áður kallað ýmsar konur sem honum líkar ekki við „feit svín“, „hunda“, „druslur“ og „ógeðsleg dýr“. Sagðist hann ekki hafa tíma fyrir pólitíska rétthugsun. Að kappræðum loknum sagði Trump að spurningar Kelly mættu ef til vill rekja til hormónastarfsemi hennar.

Trump var um helgina meinað að flytja ræðu á fjölmennri ráðstefnu fyrir bandaríska íhaldsmenn vegna ummæla sinna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×