Erlent

Trump kallar eftir yfirvegun í kappræðum

þórgnýr einar albertsson skrifar
Donald Trump vill að kappræður forsetaframbjóðandaefna séu yfirvegaðar og rökfastar.
Donald Trump vill að kappræður forsetaframbjóðandaefna séu yfirvegaðar og rökfastar. vísir/epa
Fyrstu kappræður þeirra sem sækjast eftir útnefningu Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum til forsetaframboðs á næsta ári fara fram klukkan tvö í nótt á Fox News. Munu þar þeir tíu frambjóðendur sem mælast með mest fylgi etja kappi, en alls eru frambjóðendurnir sautján.

Ljóst er að augu margra munu beinast að þeim sem með mest fylgi mælist, auðjöfrinum Donald Trump, en hann mælist með rúmlega tuttugu prósenta fylgi. Þá eru næstu menn á eftir, Jeb Bush, fyrrverandi ríkisstjóri Flórída, og Scott Walker, ríkisstjóri Wisconsin, einnig líklegir til að verða í sviðsljósinu.

Auk þeirra þriggja verða Mike Huckabee, Ben Carson, Ted Cruz, Marco Rubio, Rand Paul, Chris Christie og John Kasich á sviðinu.

Meðal þeirra sjö sem ekki mælast með nægilegt fylgi til að fá pláss á sviðinu eru eina konan í hópnum, Carly Fiorina, og Rick Perry og Rick Santorum sem buðu sig fram árið 2012 en nutu ekki stuðnings samflokksmanna sinna.

Trump, sem undanfarið hefur látið ýmis umdeild ummæli falla, kallaði eftir rökföstum og yfirveguðum kappræðum í gær. „Ég ætla ekki að ráðast á neinn, en ef einhver ræðst á mig skýt ég til baka. Ég vil samt frekar ræða vandamálin í landinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×