Erlent

Birta myndband af handtöku Söndru Bland

Atli Ísleifsson skrifar
Sandra Bland var handtekin þann 10. júlí síðastliðinn eftir að lögregla stöðvaði bíl hennar í kjölfar þess að hún hafði ekki gefið stefnuljós.
Sandra Bland var handtekin þann 10. júlí síðastliðinn eftir að lögregla stöðvaði bíl hennar í kjölfar þess að hún hafði ekki gefið stefnuljós. Vísir/AFP
Lögregluyfirvöld í Texas hafa birt myndband af handtöku Söndru Bland, þeldökkrar konu, sem lést þremur dögum síðar í varðhaldi.

Bland var handtekin þann 10. júlí síðastliðinn eftir að lögregla stöðvaði bíl hennar í kjölfar þess að hún hafði ekki gefið stefnuljós. Á myndbandinu má sjá þegar til harðra orðaskipta kemur milli lögreglumannsins og Bland.

Dánardómstjóri segir að Bland hafi hengt sig í klefa sínum, en fjölskylda hennar hefur farið fram á að óháð réttarkrufning verði framkvæmd.

Sandra Bland.Vísir/AFP
Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að fulltrúar yfirvalda í Texas og alríkislögreglunnar FBI rannsaki báðir dauða Bland.

Á myndbandinu sést hvernig lögreglumaðurinn hyggst sekta Bland og biður hana svo um að drepa í sígarettu sinni, sem hún neitar að gera.

Þegar hún neitar að fara úr bílnum reynir lögreglumaðurinn að draga hana út, beinir taser-byssu að henni og hótar að „kveikja í“ henni.

Að lokum fer Bland út úr bílnum og fara þau úr mynd, en hljóðskráin bendir til að til líkamlegra átaka hafi komið milli lögreglumannsins og Bland. Lögreglumaðurinn hefur sjálfur sagt að Bland hafi sparkað í sig, en hann er í leyfi frá störfum á meðan málið er til rannsóknar.

Fjölmargir hafa efast um áreiðanleika myndbandsins og segja augljóst að það hafi verið klippt.

Sjá má myndbandið í heild sinni að neðan auk styttri útgáfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×