Erlent

Segir NATO þjóðirnar þurfa að standa saman gegn Rússlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Ash Carter er hér til hægri.
Ash Carter er hér til hægri. Vísir/AFP
Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, kallaði eftir því að Þýskaland og önnur aðildarríki Norður Atlantshafsbandalagsins standi saman gegn yfirgangi Rússlands. Hann sagði þó að forðast þyrfti að koma af stað „öðru köldu stríði“ eða nýjum átökum við Rússa. Þetta sagði varnarmálaráðherrann í Þýskalandi í gær.

Hann sagði Evrópu hafa náð miklum framförum frá tímum Kalda stríðsins og að Rússum yrði ekki leyft að færa Evrópu aftur á bak.

„Við sækjumst ekki eftir köldu né heitu stríði við Rússland,“ sagði Carter. „Við viljum ekki gera Rússland að óvini, en við munum verja bandamenn okkar.“ Hann bætti við að NATO myndi standa í hárinu á Rússum varðandi „tilraunir þeirra til að endurbyggja“ ítök sín á Sovét tímunum.

Samkvæmt AP fréttaveitunni var Þýskaland fyrsta stoppistöð Carter í ferðalagi hans um Evrópu. Megin áherslur funda hans með leiðtogum annarra NATO ríkja verður hvernig bregðast eigi við innlimun Rússlands á Krímskaga og stuðningi þeirra við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.

Carter sagði að á sama tíma og Rússar eru að nútímavæða herafla sinn dragi þeir einnig undan NATO og sömuleiðis hóti þeir mögulega efnahagslegu öryggi Evrópu með kjarnorkuvopnum sínum. Rússar tilkynntu nýverið að þeir ætluðu að framleiða 40 nýjar kjarnorkuvopnaflaugar á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×