Erlent

„Fjölskylda mín fyrirgefur þér“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dylan Roof þegar hann var leiddur fyrir dómara í dag.
Dylan Roof þegar hann var leiddur fyrir dómara í dag. vísir/epa
Dylan Roof var leiddur fyrir dómara í dag í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum en hann er sagður hafa játað að hafa skotið níu manns til bana í gær. Skotárásin átti sér stað í kirkju þeldökkra í Charleston og voru öll fórnarlömb Roof svört á hörund.

Ættingjar nokkurra þeirra sem létust í árásinni voru viðstaddir í dag þegar Roof kom fyrir dómara og fengu að ávarpa hann þegar hann hafði svarað spurningum dómarans.

„Ég vil bara að hann viti... að ég fyrirgef þér, fjölskylda mín fyrirgefur þér,“ sagði Anthony Thompson við Roof í dag.

Margir ættingjar tóku undir þessi orð og sögðust fyrirgefa Roof. Þar á meðal var dóttir Ethel Lance.

„Ég mun aldrei tala við hana [mömmu] aftur. Ég mun aldrei faðma hana aftur. En ég fyrirgef þér. Þú særðir mig. Þú særðir fullt af fólki. Megi guð fyrirgefa þér.“

Roof keypti skammbyssuna sem hann notaði til árásarinnar sjálfur, fyrir peninga sem hann hafði fengið í afmælisgjöf.

Komið hefur fram að Roof sagði í kirkjunni að hann „yrði að gera þetta“ og að svart fólk ætti að fara aftur til síns heima. Æskuvinur hans segir að hann hafi óttast að svartir „myndu taka yfir heiminn“. Fjöldamorðið er rannsakað sem hatursglæpur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×