Íslenski boltinn

Svona var stemningin þegar Leiknir komst upp | Fyrsti heimaleikurinn í kvöld

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Leiknir spilar sinn fyrsta heimaleik í Pepsi-deild karla í fótbolta í kvöld þegar liðið tekur á móti ÍA í nýliðaslag í annarri umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta klukkan 19.15 í kvöld. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kjölfar hans verða Pepsi-mörkin á dagskrá klukkan 22.00.

Spennan fyrir leiknum er mikil í Breiðholtinu og má búast við metfjölda áhorfenda á Leiknisvöllinn, en mæting Breiðhyltinga á Hlíðarenda í fyrsta leikinn gegn Val var stórgóð.

Gleðin hefur verið mikil í efra Breiðholti síðan 4. september í fyrra þegar liðið tryggði sér sæti í Pepsi-deildinni í fyrsta skipti í sögu félagsins. Um 1.000 áhorfendur mættu á 2-1 sigurleik gegn Þrótti og hljóp slatti af þeim inn á völlinn til að fagna með hetjunum sínum þegar flautað var til leiksloka. Það var alvöru stemning.

Frétt Harðar Magnússonar um Leikinn og viðbrögð þjálfarans, Freys Alexanderssonar, má sjá í spilaranum hér að ofan.

Leiknir tapaði aðeins tveimur leikjum í 1. deildinni á síðustu leiktíð en það var gegn ÍA í bæði skiptin. Nú er bara spurning hvort Garðar Gunnlaugsson haldi áfram að hrella Leiknismenn, en hann skoraði öll þrjú mörkin gegn Leikni síðasta sumar.

Garðar skoraði tvö mörk í 2-1 sigri Skagamanna á Leikni á heimavelli og eina markið úr vítaspyrnu á 90. mínútu í seinni Leiknum í Breiðholtinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×