Íslenski boltinn

Uppbótartíminn: Línuverðir í ruglinu - Myndbönd

Valsmenn unnu sinn fyrsta sigur í gær.
Valsmenn unnu sinn fyrsta sigur í gær. vísir/stefán
Þriðja umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu kláraðist í gær. Hverjir áttu góðan dag og hverjir áttu erfiðan dag? Hvað segir tölfræðin og hver var umræðan á Twitter? Vísir gerir hér upp umferðina á léttum nótum.

Valsmenn gerðu sér lítið fyrir og lögðu meistaraefnin í FH á heimavelli. Stjarnan tapaði einnig stigum gegn nýliðum Leiknis en KR-ingar unnu sinn fyrsta sigur í sumar. Fylkismenn lögðu lánlausa Eyjamenn og Blikar gerðu enn eitt jafnteflið.

Umfjöllun og viðtöl úr öllum sex leikjum umferðarinnar:

Fylkir 3-0 ÍBV

KR 2-0 Fjölnir

Valur 2-0 FH

Stjarnan 1-1 Leiknir

ÍA 1-1 Víkingur

Keflavík 1-1 Breiðablik

Á sömu blaðsíðu. Ásmundur Arnarsson og Reynir Leósson gefa skipanir á hliðarlínunni í gær.vísir/stefán
Góð umferð fyrir ...

... Sigurð Egil Lárusson


Var hetja Valsmanna gegn meistaraefnunum í FH. Sigurður skoraði bæði mörk Vals en hann lagði einnig upp bæði mörk Hlíðarendaliðsins í 2-2 jafnteflinu við Víking í síðustu umferð. Sigurður virðist vera að springa út í búningi Vals og er kannski loks að stíga úr skugga systur sinnar, Dóru Maríu, sem er búin að leggja skóna á hilluna, allavega í sumar. Hinn íslenski Reggie Miller er farinn að gera sig gildandi.

... þjálfarateymi Leiknis


Leiknismenn náðu í gott stig gegn Íslandsmeisturum Stjörnunnar á Samsung-vellinum og hafa því fengið fjögur stig í tveimur fyrstu útileikjum sínum, gegn Stjörnunni og Val. Þjálfarateymi Leiknis, þeir Freyr Alexandersson og Davíð Snorri Jónasson, breyttu um leikkerfi fyrir leikinn gegn Stjörnunni og stilltu upp í 5-3-2 sem virkaði ljómandi vel. Góð taktísk ákvörðun hjá þessum efnilegu þjálfurum.

... Odd Inga Guðmundsson

Oddur var í byrjunarliði Fylkis annan leikinn í röð og þakkaði traustið með tveimur góðum mörkum í fyrsta sigri Árbæinga í sumar. Oddur braut ísinn með skallamarki á 78. mínútu og bætti öðru marki við tveimur mínútum seinna. Oddur skoraði tvö mörk á tveimur mínútum í sigrinum á ÍBV en hann gerði þrjú mörk á 1459 mínútum í Pepsi-deildinni allt síðasta sumar.

Heimir Guðjónsson var brúnaþungur á hliðarlínunni í gær.vísir/stefán
Erfið umferð fyrir ...

... línuverði landsins

Gærdagurinn var erfiður fyrir línuverði landsins. Línuvörðurinn í leik Stjörnunnar og Leiknis virtist dæma löglegt mark af Breiðhyltingum sem hefði tryggt þeim óvæntan sigur á Íslandsmeisturum. Ruglið reið svo ekki við einteyming í Keflavík þar sem Oddur Helgi Guðmundsson dæmdi tvö lögleg mörk af Ellerti Hreinssyni, framherja Blika. Galin frammistaða sem strákarnir í Pepsi-mörkunum fóru vel yfir.

... Heimi Guðjónsson


Þjálfarinn sigursæli mátti sætta sig við tap gegn lærimeistara sínum, Ólafi Jóhannessyni, þjálfara Vals. Heimir lék undir stjórn Ólafs hjá FH 2003-2005 og var síðan aðstoðarþjálfari um tveggja ára skeið áður en hann tók alfarið við liðinu haustið 2007 þegar Ólafur var ráðinn landsliðsþjálfari. Þetta var í fyrsta sinn sem Heimi og Ólafur mætast sem þjálfarar í efstu deild og að þessu sinni hafði lærimeistarinn betur.

... Eyjamenn


ÍBV situr í botnsæti deildarinnar, án stiga og með markatöluna 0-6. Eyjamenn voru afspyrnu lélegir gegn Fylki í Lautinni í gær og sköpuðu sér varla færi. ÍBV hefur ekki skorað í 472 mínútur í Pepsi-deildinni og Jóhannesi Harðarsyni, þjálfara liðsins, bíður ærið verkefni. Eins og staðan er núna eru Eyjamenn á hraðri leið niður um deild.



Leiknismenn voru ósáttir við markið sem var dæmt af þeim á Samsung-vellinum.vísir/stefán
Tölfræðin og sagan:

*Eyjamenn eru ekki búnir að skora mark í 472 mínútur í Pepsi-deildinni eða síðan að Gunnar Þorsteinsson skoraði í þriðju síðustu umferðinni 2014.

*Mótherjar ÍBV hafa nú skorað 13 mörk í röð í Pepsi-deildinni án þess að Eyjamenn hafa náð að svara fyrir sig.

*Fylkismenn unnu fyrsta heimaleikinn sinn 58 dögum fyrr í ár en í fyrrasumar þegar liðið vann ekki fyrsta heimaleikinn fyrr en 14. júlí.

*FH hefur aldrei unnið þrjá fyrstu leiki sína á tímabilinu síðan að Heimir Guðjónsson tók við 2008.

*FH-liðið var fyrir leikinn búið að spila fjórtán útileiki í röð í Pepsi-deildinni án þess að tapa.

*Heimir Guðjónsson og Ólafur Jóhannesson unnu saman í 82 leikjum í úrvalsdeild karla frá 2003 til 2007.

*FH vann 30 af 46 leikjunum sem Heimir spilaði fyrir Ólaf og FH vann 21 af 36 leikjum þar sem Heimir var aðstoðarþjálfari Ólafs.

*KR-liðið er með jafnmörg stig eftir þrjár umferðir og Framliðið var með undir stjórn Bjarna Guðjónssonar í fyrra.

*Fyrsti sigur Bjarna Guðjónssonar sem leikmanns KR kom líka í 2-0 sigri á móti Fjölni á KR-vellinum 29. júlí 2008.

*Stjörnumenn töpuðu líka fyrstu stigum sínum á móti nýliðum í fyrra þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Víkinga.

*Stjarnan hefur ekki tapað í síðustu fimmtán heimaleikjum sínum í Pepsi-deildinni en fimm þeirra hafa endað með jafntefli.

*Stjarnan hefur leikið 25 leiki í röð í efstu deild án þess að tapa.

*Skagamenn hafa ekki unnið í síðustu sex Pepsi-deildarleikjum sínum á Akranesvelli. 3-1 sigur liðsins á KR í september 2013 kom í Akraneshöllinni.

*Víkingsliðið náði í stig í fyrstu þremur leikjum sínum en það hafði ekki gerst síðan 1984.

*Víkingar hafa skorað meira í fyrstu þremur leikjum sínum í ár (6 mörk) en samanlagt í 1. til 3. umferð 2011 (2 mörk) og 2014 (2 mörk).

*Guðjón Pétur Lýðsson hefur tryggt Breiðabliki þrjú stig í fyrstu þremur umferðunum en hann hefur skorað jöfnunarmörk gegn Fylki, KR og Keflavík.

*Keflavík er aðeins búið að vinna einn af síðustu 11 heimaleikjum sínum í Pepsi-deildinni.

*Fjögur af sex mörkum sem Keflavík hefur fengið á sig hafa komið á síðustu 20 mínútum leikjanna.

Jonathan Glenn og félagar í ÍBV hafa ekki enn skorað mark í Pepsi-deildinni.vísir/stefán
Skemmtilegir punktar úr Boltavaktinni:

Jóhann Óli Eiðsson á Fylkisvelli:

„DJ óakveðinn er við völd hér í Lautinni og hefur verið mikið í því að skipta á milli laga. Tókst að byrja á þremur lögum á einni mínútu.“

Henry Birgir Gunnarsson á KR-velli:

„Leikni Ágústssyni leiðist þófið með flaggið. Lítið að gera. Ákveður því að dæma aukaspyrnu á nákvæmlega ekki neitt.“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson á Samsung-vellinum:

„Hér eru stuðningsmannasveitirnar að kallast á. Þvílík stemmning í stúkunni. Magnað að sjá og stórskemmtilegt. Þetta hlýtur að gefa leikmönnum gæsahúð, jafnvel gæsahroll!“

Ingvi Þór Sæmundsson á Nettó-vellinum:

„Hvar er Blikaliðið sem maður sá á undirnbúningstímabilinu? Stal því einhver? Ef svo er má hann skila því aftur.“



Hæstu og lægstu einkunnir umferðarinnar:


Sigurður Egill Lárusson, Val - 9

Davíð Örn Atlason, Víkingi - 8

Oddur Ingi Guðmundsson, Fylki - 8

Guðmundur Karl Guðmundsson, Fjölni - 3

Ólafur Páll Snorrason, Fjölni - 3

Aron Bjarnason, ÍBV - 3

Óliver Sigurjónsson, Breiðabliki - 3

Ellert Hreinsson, Breiðabliki - 3

Davíð Kristján Ólafsson, Breiðabliki - 3

Andri Rafn Yeoman, Breiðabliki - 3

Ragnar Leósson, Fjölni - 2

Gunnar Þorsteinsson, ÍBV - 2

Jonathan Glenn, ÍBV - 2

Umræðan #pepsi365

Mark 3. umferðar Atvik 3. umferðar Markasyrpa 3. umferðar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×