Erlent

101 árs gömlum manni bjargað úr rústum í Nepal

Birgir Olgeirsson skrifar
Hinn 101 árs gamli Funchu Tamang á sjúkrahúsi í Nuwakot-héraði.
Hinn 101 árs gamli Funchu Tamang á sjúkrahúsi í Nuwakot-héraði. Vísir/AFP
Hundrað og eins árs gömlum manni var bjarga úr rústum heimilis síns í Nepal í gær, viku eftir að jarðskjálfti af stærðinni 7,8 reið yfir landið.

Á vef bandarísku fréttastofunnar CNN er maðurinn sagður við ágæta heilsu en lögreglan í Nepal gat þó ekki gefið upplýsingar um hvernig maðurinn komst af og hvort hann hefði hlotið einhverja áverka.

7.250 fórust í skjálftanum og slösuðust 14.122. Fjármálaráðherra Nepal, RamSharanMahat, sagði fyrr í dag að tala látinna ætti eftir að hækka. „Við höfum enn ekki náð til þorpa sem gjöreyðilögðust,“ sagði Mahat á fjármálaráðstefnu í Bakú í Aserbaídsjan.

„Það hryggir mig mjög að standa hér fyrir framan ykkur og lýsa stöðunni í mínu landi sem er í sárum,“ sagði Mahat og benti á að milljónir hefðu misst heimilið eftir skjálftann.

Ríkisstjórn Nepal hafði gefið það út í gær að afskaplega litlar líkur væru á að einhverjir myndu finnast lifandi í rústum úr þessu. „Það er kraftaverk ef einhver finnst á lífi en við höfum þó ekki gefið upp alla von og höldum áfram að leita,“ sagði talsmaður innanríkisráðuneytisins, LaximDhakal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×