Erlent

Hefja loftárásir gegn ISIS í Tikrit

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Harðir bardagar hafa geisað í og við Tikrit seinustu vikur.
Harðir bardagar hafa geisað í og við Tikrit seinustu vikur. Vísir/Getty
Bandaríkin hafa hafið loftárásir gegn Íslamska ríkinu í borginni Tikrit í Írak. Loftárásirnar koma í kjölfar þess að íraski forsætisráðherran, Haider al-Abadi, óskaði eftir aðstoð þegar ljóst var að íraski herinn, sem berst við Íslamska inni í borginni sjálfri, gæti ekki brotið hryðjuverkasamtökin á bak aftur.

Bandaríski herinn segir að markmið loftárásanna sé að hrekja Íslamska ríkið burt frá Tikrit.

Tikrit er um 160 kílómetra norður af höfuðborg Írak, Bagdad. Fyrr í þessum mánuði hófust hernaðaraðgerðir íraska hersins til að ná borginni úr höndum Íslamska ríkisins.

Hernum tókst að hrekja hryðjuverkamennina burt úr nærliggjandi bæjum og þorpum auk þess sem hann komst inn í norður-og suðurhluta borgarinnar sjálfrar. En á seinustu tveimur vikum hefur Íslamska ríkið náð vopnum sínum og fjölmargir íraskir hermenn legið í valnum.

Því biðlaði ríkisstjórnin til Bandaríkjanna nú og vonast til að með hjálp þeirra komist Tikrit aftur undir stjórn íraskra yfirvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×