Erlent

Helmingur fullorðinna Japana stundar ekki kynlíf

Atli Ísleifsson skrifar
Um fimmtungur Japana á aldrinum 25 til 29 ára sögðust hafa lítinn eða engan áhuga á kynlífi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Um fimmtungur Japana á aldrinum 25 til 29 ára sögðust hafa lítinn eða engan áhuga á kynlífi. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Um helmingur fullorðinna Japana hafa ekki stundað kynlíf síðasta mánuðinn. Þróunin veldur japönskum stjórnvöldum miklum áhyggjum enda þykir fólksfjölgun í landinu nú þegar allt of lág.

Nýjasta rannsókn stofnunarinnar JFPA sýnir að einungis 48,3 prósent karlmanna og 50,1 prósent kvenna hafi stundað kynlíf síðasta mánuðinn. Hlutfallið mælist fimm prósent hærra en árið 2012 þegar síðasta rannsóknin var gerð.

Breska blaðið Telegraph greinir frá því að Japan hafi lengi barist við það vandamál að of fá börn koma í heiminn. Um 126,6 milljónir manna búa í landinu en fjórðungur þeirra er 65 ára eða eldri, eða 1,1 milljónir fleiri en árið 2012. Fæðingartíðni japanskra kvenna var 1,41 börn á hverja konu sem þýðir í reynd að Japönum er nú að fækka.

Ástæður þessa kynlífsleysis eru taldar margar. Þannig sögðu 21 prósent giftra karlmanna að starfs sín vegna væru þeir oft „of þreyttir“ á meðan 24 prósent kvenna sögðu það vera „of erfitt“.

Um fimmtungur Japana á aldrinum 25 til 29 ára sögðust hafa lítinn eða engan áhuga á kynlífi.

Um þrjú þúsund Japanir tóku þátt í rannsókninni. Haldi þróunin áfram á þessa lund má búast við að Japanir verði einungis um 50 milljónir árið 2100 sem jafngildir fækkun um 60 prósent borið saman við fólksfjöldann árið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×