Enski boltinn

Henry: Arsenal hefur farið aftur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Henry afhenti Cristiano Ronaldo Gullboltann á mánudaginn var.
Henry afhenti Cristiano Ronaldo Gullboltann á mánudaginn var. vísir/getty
Thierry Henry, sem lagði skóna nýverið á hilluna eftir langan og farsælan feril, þreytti frumraun sína sem knattspyrnusérfræðingur á Sky Sports í dag.

Henry, sem er 37 ára, sagði að sínum gömlu félögum í Arsenal hefði farið aftur og að liðið vanti afgerandi varnarsinnaðan miðjumann.

„Þeim hefur farið aftur, þeir virðast vera lið sem endar í 4. sæti. Arsenal ætti að setja stefnuna á titilinn“ sagði Henry sem var gestur í Super Sunday-þættinum ásamt Greame Souness.

„Þeir eru ekki langt á undan bestu liðunum en það vantar mikilvægan hlekk í liðið. Það vantar leikmann eins og Patrick Viera og Gilberto Silva,“ sagði Henry og vísaði til fyrrum liðsfélaga sinna í liði Arsenal sem fór taplaust í gegnum tímabilið 2003-04.

„Þeir gerðu okkur kleift að blómstra. Þeir vernduðu vörnina. Hefur Arsenal slíka leikmenn? Ég held ekki.“

Henry bar einnig lof á Alex Song, fyrrum Arsenal-mann og núverandi leikmann West Ham, og sagði að hann myndi styrkja lið Arsenal.

„Hann er leikmaður sem þú vilt hafa fyrir framan vörnina. Hann er leiðtogi. Þú þarft að hafa einhvern sem stjórnar og segir samherjum sínum til, stoppar sóknir - eins og Claude Makalele gerði.“

Arsenal sækir Manchester City heim klukkan 16:00 í dag. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2, en auk þess verður hægt að fylgjast með honum í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir

Kveður sem kóngur í öðru landi

Frakkinn Thierry Henry batt enda á stórkostlegan knattspyrnuferil sinn í byrjun vikunnar, 37 ára að aldri. Hann er einn af albestu leikmönnum í sögu ensku úrvalsdeildarinnar og er dáður þar í landi. Sama gildir ekki um hans föðurland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×