Fótbolti

Henry leggur skóna á hilluna og hefur feril sem sjónvarpsmaður

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsene Wenger þjálfaði Henry hjá Monaco og Arsenal og vill að hann komi að vinna fyrir Skytturnar.
Arsene Wenger þjálfaði Henry hjá Monaco og Arsenal og vill að hann komi að vinna fyrir Skytturnar. vísir/getty
Franski knattspyrnumaðurinn Thierry Henry hefur lagt skóna á hilluna og er hættur að spila fótbolta eftir langan og farsælan feril.

Þessi 37 ára gamli Frakki lauk ferlinum með New York Red Bulls í Bandaríkjunum, en hann var lengst af hjá Arsenal þar sem hann er goðsögn í lifanda lífi.

Hann vann á sínum flotta ferli Englands- og bikarmeistaratitilinn með Arsenal, Spánarmeistaratitilinn og Meistaradeildina með Barcelona auk þess sem hann varð heims- og Evrópumeistari með franska landsliðinu.

Henry var fjórum sinnum markahæstur í ensku úrvalsdeildinni, þrisvar sinnum kjörinn leikmaður ársins og er fjórði markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar frá upphafi.

Frakkinn segir þó ekki alveg skilið við fótboltann því hann hefur samið við íþróttasjónvarpsstöðina Sky Sports og verður hluti af stjörnum prýddu sérfræðingaliði hennar.

Henry var einn af sérfræðingum BBC á HM 2014 í Brasilíu í sumar og þótti standa sig mjög vel, en hann hefur undanfarin ár verið hluti af stórum útsendingum Sky Sports og BBC í úrvalsdeildinni og í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×