Erlent

Tilraunameðferð gegn ebólu hafin

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/afp
Vísindamenn við Háskólann í Oxford telja sig hafa fundið lækningu við ebóluveirunni sem nú geisar í Vestur-Afríku.  Um er að ræða tilraunalyfið Brincidofovir sem hingað til hefur einungis verið prófað á örfáum einstaklingum, en talið er lofa góðu.

Það eru samtökin Læknar án landamæra sem halda utan um verkefnið og verður lyfið í fyrstu prófað á hundrað og fjörutíu einstaklingum í Líberíu. Verkefnið er það fyrsta af þremur sem hleypt verður af stokkunum í ár, en hingað til hefur fólki í Vestur-Afríku ekki staðið til boða að taka þátt í slíkum tilraunaverkefnum.

Lyfið hefur verið prófað á nokkrum einstaklingum, meðal annars á Bandaríkjamanninum Thomas Eric Duncan, en hann lést í október síðastliðnum. Lyfið reyndist kvikmyndatökumanninum Ashoka Mukpo þó eilítið betur. Hann smitaðist í Líberíu í október og er við fulla heilsu í dag. Vísindamenn segja því ómögulegt að segja til um hvort lyfið í raun og veru virki, en binda vonir við að svo sé. Búið sé að þróa lyfið enn frekar og segja það lofa góðu.

Niðurstaðna úr rannsóknunum er að vænta í febrúar á næsta ári. Nú hafa hátt í átta þúsund orðið faraldrinum að bráð og um tuttugu þúsund eru sýktir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.