Erlent

Stanslaust sírenuvæl í hverfinu í allan dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Brynhildur Jónsdóttir-Givelet segir að atburðir siðustu daga hafi haft áhrif á daglegt líf Parísarbúa, þvert á vilja þeirra.
Brynhildur Jónsdóttir-Givelet segir að atburðir siðustu daga hafi haft áhrif á daglegt líf Parísarbúa, þvert á vilja þeirra. Vísir
„Ég var einmitt að taka eftir því að sírenuvælið var að dvína en það er búið að vera stanslaust í allan dag,“ segir Brynhildur Jónsdóttir-Givelet sem býr í 12. hverfi Parísar. Vopnaður maður tók fólk í gíslingu í matvörubúð í hverfinu í dag og réðst lögregla til atlögu þar um klukkan 16 í dag. Að minnsta kosti fjórir gíslanna eru látnir, auk gíslatökumannsins.

„Þegar þetta byrjaði allt um hálftvö þá dreif ég mig út að sækja son minn í skólann. Hann er ekki í skóla í hverfinu heldur niðri í Le Marais sem er gmala gyðingahverfið. Þar er búin að vera gríðarlega mikil öryggisgæsla síðan á miðvikudaginn. Sonur minn er í gagnfræðaskóla, hann er að verða 12 ára, en maður sér að fólk er að fylgja börnunum og sækja þau í skólann,“ segir Brynhildur.

Hún og fjölskylda hennar búa ekki alveg við þar sem gíslatakan var í dag enda er 12. hverfi gríðarstórt:

„Við gátum því verið frjáls hér í okkar hluta hverfisins en því var lokað aðeins austar og fólki ráðlagt að halda sig innandyra. Börnum var meðal annars ekki hleypt heim úr skólanum og var fólki bannað að koma inn í hverfið eða því ráðlagt að halda sig innandyra,“ segir Brynhildur.

Aðspurð um hvernig andrúmsloftið hefur verið í París seinustu daga segir Brynhildur:

„Þetta hefur verið voðalega skrýtið. Fólk er á því að það vilji halda áfram sínu daglega lífi en á sama tíma sér maður að fólki er órótt. Í dag virtist þetta ekki vera neitt skipulagt hjá þessum mönnum og maður vissi ekki hvað þeim dytti í hug að gera næst.“

Hún segir að þó að fólk hafi ekki viljað láta hryðjuverkamennina komast upp með að setja líf sitt á annan endann þá hafi atburðir seinustu daga engu að síður haft áhrif á daglegt líf. Nokkrum metróstöðvum hafi meðal annars verið lokað og þá standi vopnaður vörður við hlið vagnstjóra í strætisvögnum borgarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×