Erlent

Gríðarleg eyðilegging á Vanuatu vegna fellibylsins Pam

Atli Ísleifsson skrifar
Frá höfuðborginni Port Vila.
Frá höfuðborginni Port Vila. Vísir/AFP
Mikil eyðilegging blasti við íbúum Kyrrahafsríkisins Vanuatu eftir að fellibylurinn Pam gekk yfir eyjaklasann i gær.

Tom Skirrow, talsmaður Barnaheilla (Save the Children), segir hús í höfuðborginni Port Vila hafa eyðilagst og að íbúar gangi um götur borgarinnar í leit að hjálp.

Í frétt BBC kemur fram að Skirrow hafi staðfest að átta manns hafi látist þó að stofnanir Sameinuðu þjóðanna óttist að sú tala kunni í raun að vera mun hærri.

Baldwin Londsdale, forseti Vanuatu, hefur biðlað til alþjóðasamfélagsins um aðstoð.

Styrkur Pam náði mest 75 metra á sekúndu, auk mikillar úrkomu. Tré hafa rifnað upp með rótum, heilu þökin hafa fokið af húsum og rafmagnslínur eyðilagst.

Fréttir hafa borist um að heilu þorpin á Vanuatu hafi eyðilagst þegar Pam gekk yfir.

Íbúar Vanuatu eru um 267 þúsund talsins og búa á 65 eyjum. Um 47 þúsund búa í höfuðborginni Port Vila.

Pam er fimmta stigs fellibylur og hafði þegar valdið mikilli eyðileggingu á öðrum Kyrrahafseyjum, þar á meðal Kiribatí og Solomon-eyjum. Þá hafa stjórnvöld í Tuvalu lýst yfir neyðarástandi vegna þeirra flóða sem fellibylurinn hefur valdið.

Vísir/AFPFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.