Erlent

Milljón barna deyr á fæðingardegi sínum

Bjarki Ármannsson skrifar
Nýbakaðar mæður í Síerra Leóne, þar sem 44 börn af hverjum þúsund létust á fyrsta mánuði lífs síns í fyrra.
Nýbakaðar mæður í Síerra Leóne, þar sem 44 börn af hverjum þúsund létust á fyrsta mánuði lífs síns í fyrra. Vísir/AFP
Um 2,8 milljónir barna deyja ár hvert á fyrstu 28 dögum lífs síns, þar af ein milljón á fyrsta sólarhringnum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF, barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, um ungbarnadauða.

Í umsögn UNICEF á Íslandi um skýrsluna segir að auðveldlega mætti koma í veg fyrir mörg þessara dauðsfalla með einföldum og ódýrum lausnum meðan á fæðingu stendur og strax í kjölfar hennar. Aðgengi og gæðum heilsuverndar í fátækari ríkjum heims sé gríðarlega ábótavant en samkvæmt skýrslunni komu fjörutíu milljónir barna í heiminn án nokkurrar faglegrar fæðingarhjálpar árið 2012. Það gerir um einn þriðja allra barna sem fæddust það árið.

Gríðarlegur munur er á tíðni ungbarnadauða í þróuðum og vanþróuðum löndum, en Angóla er samkvæmt skýrslunni hættulegasta landið fyrir nýfædd börn. Þar dóu 47 af hverjum þúsund börnum á fyrstu 28 dögunum eftir fæðingu í fyrra. Ísland mælist aftur á móti öruggasta landið ásamt Lúxemborg en hér á landi létust aðeins tvö af hverjum þúsund fæddum börnum á þessu tímabili.

Í fyrra létust alls 6,3 milljónir barna undir fimm ára aldri á heimsvísu. Þótt þessi tala sé sláandi há er vert að nefna að árið 1990 létust 12,7 milljónir barna á sama aldri. Tíðni ungbarnadauða hefur þannig dregist saman um helming á rúmum tveimur áratugum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×