Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ undrast framkomu Dalvíkur/Reynis í tengslum við málefni leikmanns sem lagði pening undir gegn eigin liði.
Stefán Garðar Níelsson, formaður knattspyrnudeildar félagsins staðfesti í viðtali við Fréttablaðið að leikmaður liðsins hefði viðurkennt að hafa veðjað á úrslit eigin liðs fyrr í vetur.
„Veðmálastarfsemi og ýmislegt í kringum hana er stórt vandamál í öllum heiminum. Þetta er sífellt að færast í aukana og ég geri ráð fyrir að við þurfum að standa í svona málum eins og allir aðrir,“ sagði Þórir í samtali við Stöð 2 í kvöld.
„Það kom mér á óvart, við fengum ekki frekari aðstoð þegar við leituðum hennar á sínum tíma heldur sjáum við þetta í fjölmiðlum.“
Nánar verður fjallað um málið í Fréttablaðinu á morgun.
