Erlent

IS birtir nýtt myndband með breskum blaðamanni

John Cantlie var rænt í Sýrlandi í nóvember 2012.
John Cantlie var rænt í Sýrlandi í nóvember 2012.
Breski blaðamaðurinn John Cantlie birtist í nýju myndbandi hryðjuverkasamtakanna IS sem birt var fyrr í dag. Cantlie hefur verið í haldi IS-liða frá árinu 2012.

IS hefur náð stórum landsvæðum í Sýrlandi og Írak á sitt vald og hafa birt aftökumyndbönd af tveimur bandarískum blaðamönnum og breskum hjálparstarfsmanni síðustu vikur. Segja liðsmenn samtakanna aftökurnar vera svar við loftárásum Bandaríkjahers í Írak.

Í myndbandinu, sem er um þrjár mínútur að lengd, sést Cantlie þar sem hann virðist vera við ágæta heilsu og heitir því að koma ákveðnum „staðreyndum“ á framfæri í „röð þátta“ sem bendir til þess að fleiri sambærileg myndbönd verði síðar gerð opinber.

„Ég veit hvað þið eruð að hugsa. Þið hugsið, „Hann gerir þetta bara þar sem hann er fangi. Byssu er beint að höfði hans og verið er að neyða hann til að gera þetta“, segir Cantlie sem klæðist appelsínugulum búningi. „Það er reyndar satt. Ég er fangi. Ég get ekki neitað því. En þar sem ríkisstjórn mín hefur yfirgefið mig og örlög mín er í höndum Ríkis íslams þá hef ég engu að tapa.“

Cantlie segist í myndbandinu hafa unnið fyrir bresk dagblöð og tímarit á borð við Sunday Times, Sun og Sunday Telegraph. „Eftir tvö skelfileg og svakalega óvinsæl stríð í Afganistan og Írak, af hverju virðast ríkisstjórnir okkar ólm vilja blanda sér í aðra deilu sem hún getur ekki unnið,“ spyr Cantlie.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×