Erlent

Lögregla skaut ógnandi kú á Skáni

Atli Ísleifsson skrifar
Þessi rólyndislegi íslenski kálfur hefði seint gengið af göflunum eins og sænska beljan.
Þessi rólyndislegi íslenski kálfur hefði seint gengið af göflunum eins og sænska beljan. Úr safni
Lögregla á Skáni í Svíþjóð drap kú eftir að hún réðst á sjötugan bónda í bænum Perstorp í nótt. Lögreglunni barst tilkynning um að um tugur kúa gengi laus nálægt kirkjunni í bænum um klukkan þrjú í nótt. Þegar lögregla kom á vettvang höfðu nokkrar kýrnar farið inn á lóð sjötugs bónda sem gerði þá tilraun til að reka þær í burtu. Við það réðst ein kýrin á bóndann sem missti við það meðvitund.

Lögregla stillti sér þá upp milli kýrinnar og bóndans og skaut nokkrum viðvörunarskotum, en kýrin neitaði að færa sig úr stað. Þegar kýrin gerði sig líklega til að ráðast á lögreglumennina neyddust þeir til að skjóta kúna.

Á vef Sydsvenskan segir að bóndinn hafi komið til meðvitundar á ný áður en sjúkrabíll kom á vettvang, en kvartaði þá yfir eymslum í efri hluta líkamans og var fluttur á sjúkrahús til rannsóknar.

Undir morgun náðist svo í eiganda lausu kúnna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×