Erlent

Betri lífsskilyrði fyrir SOS-ungmenni

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Móðir og börn í barnaþorpinu Cochin á Indlandi.
Móðir og börn í barnaþorpinu Cochin á Indlandi.
Könnun á lífsskilyrðum og aðstæðum SOS-ungmenna á Indlandi leiddi í ljós að 94 prósent þeirra eru yfir meðaltali þegar kemur að andlegri líðan, félagslegum aðstæðum, fjölskyldulífi og starfsframa.

Könnunin, sem framkvæmd var af óháðum aðila, var gerð í tilefni 50 ára afmælis SOS Barnaþorpanna á Indlandi. Hún stóð yfir í átta mánuði og náði til 566 ungmenna sem ólust upp í 14 slíkum þorpum víðs vegar um Indland. Ekkert ungmenni mældist undir meðaltali og aðeins sex prósent í meðallagi. Þá skoruðu konur örlítið hærra á kvarðanum en karlar.

Að sögn Sunnu Stefánsdóttur, upplýsingafulltrúa hjá SOS Barnaþorpunum á Íslandi, eru um 700 Íslendingar SOS-styrktarforeldrar og SOS-barnaþorpsvinir á Indlandi.

„Alls námu framlög íslenskra styrktarforeldra og barnaþorpsvina rúmum 243 milljónum árið 2013, þar af fóru 28 milljónir til Indlands.“ Ekkert land fái jafn háa upphæð frá Íslandi en þar eru alls 42 SOS Barnaþorp.

Upphæðin sem styrktarforeldrar greiða á mánuði dugar til framfærslu eins barns. Um er að ræða áður munaðarlaus og yfirgefin börn sem fá nýtt heimili í SOS Barnaþorpi. Barnaþorpsvinir borga 3.250 krónur á mánuði og nýtist sú upphæð í rekstur barnaþorpsins, til að mynda viðhald, öryggisgæslu og fleira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×