Erlent

Kínverjar draga úr losun skaðlegra efna

Freyr Bjarnason skrifar
Zhang Gaoni, varaforseti Kína, ávarpar loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Fréttablaðið/AP
Zhang Gaoni, varaforseti Kína, ávarpar loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Fréttablaðið/AP
Kínverjar hafa ákveðið, fyrir árið 2020, að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 45 prósent frá því magni sem var losað árið 2005. Þetta kom fram á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem lauk í New York á þriðjudag.

Vegna þess að hagvöxtur í Kína hefur meira en þrefaldast frá árinu 2005 fær þjóðin samt undanþágu næstu árin til að halda áfram að menga mest allra þjóða í heiminum. Umhverfisverndarsinnar fagna engu að síður ákvörðun kínverskra stjórnvalda um að draga úr losuninni því hingað til hafa þau lítið viljað fylgja slíkum tilmælum.

Barack Obama Bandaríkjaforseti hvatti þjóðir heimsins til að fylgja fordæmi Bandaríkjanna í loftslagsmálum. „Bandaríkin hafa fjárfest ríkulega í hreinni orku og dregið umtalsvert úr losun gróðurhúsalofttegunda,“ sagði Obama. „Í dag bið ég allar þjóðir að ganga til liðs við okkur, ekki á næsta ári eða árið þar á eftir, heldur núna. Vegna þess að engin þjóð getur tekist á við þessa alheimsvá alein.“

Engin þeirra loforða sem sett voru fram á ráðstefnunni eru bindandi. Þess í stað átti ráðstefnan að leggja grundvöllinn fyrir nýjan loftslagssáttmála sem verður samþykktur síðar.

Rúmlega 150 þjóðir samþykktu að eyðing skóga yrði úr sögunni fyrir árið 2030 og er það í fyrsta sinn sem slíkur lokafrestur er ákveðinn. Bandaríkin, Kanada og Evrópusambandið skrifuðu undir yfirlýsingu um að minnka eyðinguna um helming fyrir árið 2020. Árið 2030 á henni síðan að ljúka.

Ef markmiðið næst segja Sameinuðu þjóðirnar það jafngilda því að ef allir bílar heimsins yrðu teknir af götunum. Þar að auki lofuðu Norðmenn að eyða rúmum 40 milljörðum króna í verndun skóga í Perú og öðrum tólf milljörðum í verndun skóga í Líberíu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×