Erlent

Eins og að höggva hausinn af

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Brotthvarf Skotlands mynda skilja Bretland eftir í sárum.
Brotthvarf Skotlands mynda skilja Bretland eftir í sárum. nordicphotos/AFP
„Ef við tökum burt Skotland, þá eyðileggjum við Bretland,“ segir Boris Johnson, borgarstjóri í London, í hvassri grein á vefsíðu breska dagblaðsins The Telegraph í gær.

Þar fer hann hörðum orðum um Alex Salmond og sjálfstæðishreyfingu hans í Skotlandi, en nú hafa skoðanakannanir í fyrsta sinn sýnt fram á raunhæfan möguleika á því að meirihluti Skota samþykki að segja skilið við Bretland.

Atkvæðagreiðslan verður 18. september, sem sagt á fimmtudaginn í næstu viku, og sambandssinnar virðast orðnir dauðskelkaðir við að niðurstaðan verði Salmond í vil.

Johnson segir að án Skotlands verði Bretland ekki lengur Bretland. Skotlandi muni hins vegar farnast vel, með eða án Englands og Wales.

Hann minnir á að á landakortum sé Skotland ekki ósvipað höfði sem situr á sitjandi búk Englands og Wales. Með því að hvetja kjósendur til að samþykkja sjálfstæði Skotlands sé Salmond því í raun ekki að biðja fólk um að greiða atkvæði með velgengni Skotlands, heldur með því að taka hausinn af Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×