Enski boltinn

Monk: Þess vegna keyptum við Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi fagnar marki sínu á móti Manchester United með félögum sínum í Swansea við einn hornfánann á Old Trafford á laugardaginn.
Gylfi fagnar marki sínu á móti Manchester United með félögum sínum í Swansea við einn hornfánann á Old Trafford á laugardaginn. Vísir/AP
Gylfi Þór Sigurðsson átti algjöran draumadag í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar á Old Trafford á laugardaginn. Gylfi tryggði þá Swansea 2-1 sigur á Manchester United með marki 18 mínútum fyrir leikslok en hann hafði áður lagt upp fyrsta mark tímabilsins fyrir Suður-Kóreumanninn Ki Sung-yueng.

Gylfi hefur aldrei falið þá staðreynd að hafa alist upp sem stuðningsmaður Manchester United en íslenski landsliðsmaðurinn kom sér ekki á neina vinsældalista hjá United-mönnum þegar hann „eyðilagði“ fyrsta deildarleik félagsins undir stjórn Hollendingsins Louis Van Gaal.

Einbeittur og þolinmóður

„Þess vegna keypti ég hann því þarna sáum við hæfileikana sem hann hefur upp á að bjóða. Þegar þú kemur á stað sem þennan þá eru tækifærin af skornum skammti. Þú verður því að vera þolinmóður og einbeittur og tilbúinn þegar stundin rennur upp. Gylfi var það,“ sagði Garry Monk, knattspyrnustjóri Swansea, eftir leikinn.

Aðeins sex aðrir leikmenn hafa náð því að skora og leggja upp mark í sama leiknum á móti Manchester United á Old Trafford á undanförnum fimm árum og það hafði ekkert gerst síðan Daninn Christian Eriksen náði því á fyrsta degi ársins. Enginn þeirra skoraði þó sigurmarkið líka eins og Gylfi á laugardaginn.

„Ég tel að við höfum átt þennan sigur skilinn. Það er alltaf erfitt að koma hingað og þá sérstaklega í fyrsta leik. Við héldum þetta út og leikskipulagið gekk fullkomlega upp,“ sagði Gylfi við BBC eftir leikinn.

Gylfi var með 7 mörk og 5 stoðsendingar í 18 leikjum með Swansea vorið 2012 og tók upp þráðinn aftur strax í fyrsta leik eftir að hafa ekki náð að tryggja sér fast sæti í Tottenham-liðinu síðustu tvö tímabil.

„Þetta er auðvitað aðeins öðruvísi því það hafa orðið nokkrar stjórabreytingar og leikmenn hafa komið og farið. Fótboltinn sem Swansea spilar hefur samt ekkert breyst,“ sagði Gylfi og hann fékk líka hrós frá fyrirliða Swansea-liðsins.

Með markanef

„Gylfi hefur markanef og hann veit það vel að við treystum á hann. Hann var á réttum stað á réttum tíma og sýndi og sannaði að hann verður mjög mikilvægur leikmaður fyrir okkur,“ sagði Ashley Williams á heimasíðu félagsins.

Það voru fleiri hetjur í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar og hér eru nokkrar þeirra. Eric Dier tryggði tíu mönnum Tottenham 1-0 sigur á West Ham með marki á 90. mínútu í sínum fyrsta deildarleik fyrir félagið, Aaron Ramsey tryggði Arsenal 2-1 sigur á Crystal Palace með marki í uppbótartíma og Daniel Sturridge skoraði sigurmark Liverpool á móti Southampton ellefu mínútum fyrir leikslok.


Tengdar fréttir

Gylfi snýr aftur með Swansea á stóra sviðinu

Gylfi Þór Sigurðsson verður í sviðsljósinu í hádeginu þegar Swansea heimsækir Manchester United á Old Trafford í fyrsta leik ensku úrvalsdeildarinnar. Fyrir áratug átti íslenskur knattspyrnumaður sviðið í fyrstu umferð á móti United.

Lykilatriðið er að fá að spila

Gylfi Þór Sigurðsson verður eini Íslendingurinn í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili. Gylfi gekk til liðs við Swansea á ný í sumar eftir tvö ár hjá Tottenham en hann hafði fengið nóg af því að sitja á bekknum eða vera út á kanti. Gylfi verður í eldlínunni með Swansea í hádegisleiknum gegn Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×