Erlent

Meira en þúsund manns hafa látið lífið

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Heilbrigðisstarfsmaður á sjúkrahúsi í Síerra Leóne skoðar ebólusmitaða sjúklinga.
Heilbrigðisstarfsmaður á sjúkrahúsi í Síerra Leóne skoðar ebólusmitaða sjúklinga. Vísir/AP
Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin, WHO, hefur komist að þeirri niðurstöðu að siðferðilega réttmætt sé að nota lyf, sem enn eru á tilraunastigi, á sjúklinga sem smitast hafa af ebóluveirunni.

Einungis tveir Bandaríkjamenn og einn Spánverji hafa til þessa fengið að njóta góðs af lyfjum, sem hugsanlega gætu hjálpað ebólusmituðum. Spánverjinn lést í gær en Bandaríkjamennirnir tveir eru sagðir vera á batavegi.

Afríkubúar hafa hins vegar enn engin lyf fengið, þrátt fyrir að veiran hafi á þessu ári lagt meira en þúsund manns að velli í fjórum Afríkuríkjum: Gíneu, Síerra Leóne, Líberíu og Nígeríu.

„Ef til eru lyf sem gætu bjargað mannslífum, eins og tilraunir á dýrum benda til, eigum við þá ekki að nota þau til þess að bjarga mannslífum?“ spyr Marie-Paule Kieny, aðstoðarframkvæmdastjóri stofnunarinnar. Hins vegar tók hún fram að ekki mætti vekja falskar vonir um að fundin væri örugg leið til þess að lækna ebólu: „Það er alls ekki svo,“ sagði hún á blaðamannafundi á Spáni í gær.

Sumir sérfræðingar telja engan veginn ljóst að þróun nýrra lyfja eða bóluefna sé komin það langt að þau geti skipt sköpum í baráttunni við ebólu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×