Íslenski boltinn

Fæ skyndilega skilaboð um að ég gæti rift samningnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jóhann Laxdal í leik með Stjörnunni.
Jóhann Laxdal í leik með Stjörnunni. Mynd/Fréttablaðið
Bakvörðurinn öflugi Jóhann Laxdal er genginn aftur í raðir Stjörnunnar frá Ullensaker/Kisa í norsku 1. deildinni sem hann samdi við eftir síðustu leiktíð. Jóhann hefur spilað nánast alla leiki liðsins í deildinni, en forráðamenn norska liðsins vildu samt sem áður losna við hann.

„Þetta er eiginlega frá þeim komið. Ég fæ skilaboð í gegnum umboðsmann minn frá forráðamönnum félagsins um að ég geti rift samningnum. Þjálfararnir voru samt ekki ánægðir með þetta þannig ég er að fá misvísandi skilaboð,“ segir Jóhann í samtali við Fréttablaðið.

„Þjálfararnir fréttu í morgun að þetta hefði komið frá stjórninni og þeir voru ekki nógu ánægðir með það. Það var samt ekki hægt að snúa aftur eftir þetta. Það hefði verið mjög skrýtið að halda áfram þegar yfirvaldið vill mann burt. Þeir geta þá notað peninginn til að kaupa aðra leikmenn þannig að ég taldi best að koma bara heim aftur,“ segir Jóhann.

„Þetta snýst ekkert um að mér líði illa og vilji koma heim – alls ekki. Ég hef yfir engu að kvarta. Ég er á frábærum stað og mér semur vel við strákana. Ég setti bara mikla pressu á sjálfan mig þegar ég kom út og vildi komast enn lengra í atvinnumennskunni.“

Stjarnan fékk Nicklas Vemmelund til að leysa Jóhann af og hefur hann staðið sig vel. Býst Jóhann við að fá stöðuna sína strax aftur?

„Nei. Ég kem bara heim og verð leikmaður Stjörnunnar. Ef ég þarf að sitja á bekknum til að byrja með verð ég bara ofur-varamaður,“ sagði Jóhann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×