Erlent

Fleiri smástirni lenda á jörðu niðri

Freyr Bjarnason skrifar
Smástirnið sem sveif yfir rússnesku borginni Chelybinsk í fyrra og lenti í ísilögðu vatni.
Smástirnið sem sveif yfir rússnesku borginni Chelybinsk í fyrra og lenti í ísilögðu vatni. Nordicphotos/AFP
Bandaríska vísindastofnunin B612 hefur birt myndband á heimasíðu sinni sem sýnir hvar smástirni hafa lent á jörðinni á undanförnum árum. Með myndbandinu vill hún sína fram á að aðskotahlutir úr geimnum eru algengari á jörðinni en flestir halda og hvetur stjórnvöld til að vera betur á varðbergi gagnvart þeim.

Myndbandið byggir á gögnum samtakanna CTBTO, sem berjast gegn tilraunum með kjarnorkusprengjur. Á árunum 2000 til 2013 urðu skynjarar samtakanna varir við 26 stórar sprengingar á jörðinni. Engin þeirra var af völdum kjarnorkjusprengju heldur smástirna sem lentu á jörðinni. Krafturinn sem myndaðist við það nam allt frá frá einu kílótonni upp í sex hundruð. Til samanburðar var sprengjan sem lagði japönsku borgina Hiroshima í rúst 15 kílótonn.

Sem betur fer eyðist megnið af öllu geimgrjóti í lofthjúpi jarðar, auk þess sem mikið af því sem kemst í gegn lendir í sjónum. Aðeins örfá tilfelli hafa komist í fréttirnar, nú síðast þegar stór loftsteinn sem var 20 metrar að þvermáli sveif yfir rússnesku borginni Chelybinsk í fyrra og lenti í ísilögðu vatni. Þrátt fyrir að sá atburður hafi verið erfið lífsreynsla fyrir þá sem bjuggu á svæðinu var steinninn lítill í sögulegu samhengi.

Samkvæmt B612 gefa gögnin frá CTBTO í skyn að einu sinni á hverjum hundrað árum lendi á jörðinni margra megatonna smástirni á jörðinni, nógu stórt til að valda mikilli eyðileggingu í stórri borg. Frægt er þegar smástirni eða halastjarna, sem talið er að hafi verið um 45 kílómetrar í þvermál, lenti á óbyggðu svæði skammt frá ánni Tunguska í Rússlandi árið 1908.

„Það er dálítið svipað með þetta og jarðskjálfta,“ segir Ed Lu, fyrrverandi geimfari og núverandi yfirmaður B612 í viðtali við BBC. „Í borgum þar sem mikil hætta er á þeim, Tókýó, Los Angeles og San Francisco, er vitað um líkurnar á stórum sjálftum með því að fylgjast með litlum skjálftum. Það er hægt að gera það sama með smástirni,“ sagði hann. „Lítið hefur verið vitað um þau sem hafa lent á jörðinni síðasta áratuginn fyrr en núna nýlega. Upplýsingarnar sýna okkur að smástirni sem lenda hér eru mun fleiri en við héldum.“

Til þess að meta betur líkurnar á því að svona stórir loftsteinar skelli á jörðu er B612 að smíða sjónaukann Sentinel. Hann verður tilbúinn til notkunar árið 2018 og kostar um 28 milljarða króna. Hann verður staðsettur á braut um jörðu og á að koma auga á þá stóru loftsteina sem þau tæki sem til staðar eru á jörðinni sjá ekki vegna sólarljóssins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×