Erlent

CIA gaf villandi upplýsingar um pyntingar

Snærós Sindradóttir skrifar
Barack Obama forsetinn er undir þrýstingi um að aflétta allri leynd af skýrslunni.
Barack Obama forsetinn er undir þrýstingi um að aflétta allri leynd af skýrslunni. VÍSIR/AP
Yfirheyrsluaðferðir bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, eru ofbeldisfullar samkvæmt hluta skýrslu sem öldungadeild Bandaríkjaþings lét vinna og var lekið nú á dögunum.

The Guardian, sem fjallar um lekann, segir að skýrslan taki á yfirheyrsluaðferðum CIA í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001. Í skýrslunni kemur fram að fleiri grunaðir hafi undirgengist yfirheyrslur en CIA hefur viðurkennt.

Jafnframt kemur fram að CIA hafi markvisst lekið villandi upplýsingum til fjölmiðla með það að markmiði að afvegaleiða umræðuna.

Rannsókn á yfirheyrsluaðferðum CIA tók fjögur ár og kostaði 40 milljónir dala í framkvæmd.

Vegna lekans hefur aukinn þrýstingur verið á Bandaríkjastjórn að birta skýrsluna í heild en CIA hefur beðið um að rannsókn fari fram á lekanum.

Fjörutíu meðlimir fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hafa skrifað til forseta Bandaríkjanna, Baracks Obama, og krafið hann um birtingu skýrslunnar í heild. Segir í kröfunni að bandaríska þjóðin eigi rétt á að vita hvers konar pyntingar fóru fram í hennar nafni.

Í þeim hluta sem gerður hefur verið opinber kemur meðal annars fram að þær pyntingar sem beitt var hafi verið illa skipulagðar og að ítrekaðar athugasemdir innra eftirlits vegna þeirra hafi verið hunsaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×