Erlent

Túrtsjínov tekur við til bráðabirgða

Freyr Bjarnason skrifar
Oleksandr Túrtsjínov, til hægri, er orðinn bráðabirgðaforseti Úkraínu.
Oleksandr Túrtsjínov, til hægri, er orðinn bráðabirgðaforseti Úkraínu. vísir/AFP
Oleksandr Túrtsjínov hefur tekið við sem bráðabirgðaforseti Úkraínu eftir að forsetinn Viktor Janúkovítsj hrökklaðist úr embætti.

Úkraínska löggjafarþinginu hefur verið falið að mynda þjóðstjórn í landinu og Túrtsjínov, forseta þingsins, falið forsetavald þar til gengið verður til kosninga í lok maí á þessu ári.

Túrtsjínov sagði úkraínskum þingmönnum í gær að þeir hefðu tíma til þriðjudags til að mynda nýja ríkisstjórn. Júlía Tímosjenko, sem var látin laus úr fangelsi á laugardag, hefur útilokað að taka við embætti forsætisráðherra á nýjan leik.

Ekki hefur fengist staðfest hvar Janúkovitsj er staddur eftir að hann yfirgaf höfuðborgina og hélt til annarra bækistöðva sinna í austurhluta Úkraínu. Hann telur að ákvarðanir þingsins undanfarna daga hafi verið ólöglegar. Aðstoðarmaður forsetans sagði við AP-fréttastofuna að hann ætli að halda áfram að sinna forsetaskyldum sínum.

Úkraínu er skipt í tvo hluta sem deila hart. Annars vegar austurhluta Úkraínu þar sem íbúar eru að mestu fylgjandi rússneskum áhrifum og hins vegar vesturhluta þar sem íbúar hafa mikla andúð á Janúkovitsj og vilja samstarf við Evrópusambandið.

Susan Rice, öryggisráðgjafi Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna, sagði í viðtali á NBC að Rússar myndu gera mikil mistök ef þeir beittu hervaldi í Úkraínu. Hún bætti við að á næstu vikum myndu Bandaríkin, í samstarfi við Evrópuríki og alþjóðlegar stofnanir, veita Úkraínu sameiginlega fjárhagsaðstoð.

Fjármálaráðherra Rússlands hvatti Úkraínu í gær til að sækja um lán til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×