Erlent

Ætlar ekki að hitta Dalai Lama

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Dalai Lama hefur barist fyrir aðskilnaði Tíbet frá Kína.
Dalai Lama hefur barist fyrir aðskilnaði Tíbet frá Kína. Vísir/AFP
Olemic Thommessen þingforseti norska þingsins segist ekki ætla að hitta Dalai Lama þegar hann heimsækir Noreg. Þá finnst honum skipta meira máli að bæta samskipti Norðmanna og Kínverja. News in English.no greinir frá þessu.

Friðarleiðtoginn og tíbetski búddistaleiðtoginn Dalai Lama er á leið til Noregs vegna þess að 25 ár eru síðan hann hlaut friðarverðlaun Nóbels.

Thommessen, sem er þingforseti Noregs, hafði verið formaður sérstakrar Tíbetnefndar norska þingsins þar til síðasta haust. Þingforsetinn, sem er þingmaður íhaldsflokksins Høyre, sagði ástæðu þess að hann ætli ekki að hitta Lama vera þá að ekki sé Noregi í hag að eiga í nokkurs konar deilum við Kína.

"Það var aldrei ætlun Noregs að hafa nokkuð á móti Kína," sagði Thommessen. "Við verðum stöðugt að meta hvað er Noregi í hag. Í ljósi aðstæðna eftir slíkt mat finnst mér ég ekki eiga að hitta hann sem stendur."

Samband Noregs og Kína hefur verið kaldranalegt síðan mannréttindabaráttumaðurinn Liu Xiaobo hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2010.

Í kjölfar afhendingarinnar krafðist Kína afsökunarbeiðni fyrir verðlaunagjöfina, þrátt fyrir að hvorki norska ríkisstjórnin né þingið hafi nokkuð um það að segja hver hlýtur verðlaunin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×