Erlent

Morðingi Kristjáns sakfelldur

Samúel Karl Ólason skrifar
Jermaine Jackson.
Jermaine Jackson.
Jermaine Jackson var í gær sakfelldur  fyrir að myrða tvo menn. Þar á meðal Kristján Hinrik Þórsson, þann 8. september 2012. Kristján, sem var 18 ára gamall, var með John White fyrir utan verslun í borginni Tulsa þegar Jackson hóf skothríð á bíl þeirra.

Jackson hélt því fram fyrir dómi að um sjálfsvörn hefði verið að ræða, samkvæmt vefnum Tulsaworld.com.

Saksóknarinn Julie Doss sagði í lokaávarpi sínu að skotárásin hafi átt sér stað vegna rifrildis Jackson og White. Jackson sagðist hafa verið á gangi og White hafi nærri því keyrt á sig. Hann hafi elt bílinn og að bílastæði verslunar, þar sem hann skaut tíu skotum úr skammbyssu inn um rúðu bílsins. Bæði Kristján og John White fengu skot í höfuðið.

„Þetta var eins og að skjóta í tunnu,“ sagði Doss.

Jackson sagði lögreglu að hann hefði hleypt af því hann taldi White vera að teygja sig eftir byssu. Lögreglan fann þó enga byssu í bílnum.

Saksóknarinn ætlar að fara fram á að Jackson muni sitja í fangelsi í 76 ár, áður en hann á möguleika á reynslulausn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×