Erlent

Bar vitni í klukkutíma áður en uppgötvaðist að hún talaði ekki ensku

Atli Ísleifsson skrifar
Lögmennirnir kenndu upphaflega mállýsku konunnar og hljómburði dómssalarins um að þeir skildu lítið hvað hún var að segja.
Lögmennirnir kenndu upphaflega mállýsku konunnar og hljómburði dómssalarins um að þeir skildu lítið hvað hún var að segja. Vísir/Getty
Kona sem sakar afrískan prest um að hafa nauðgað sér talaði úr vitnastúku í breskum dómssal í rúma klukkustund áður en einhver benti á að hún var í raun ekki að tala ensku.

Lögmenn báðu konuna, sem talar sérstaka tungu sem töluð er á ákveðnum svæðum í Síerra Leóne, ítrekað um að tala hægar og vera ekki svona nálægt hljóðnemanum. Kenndu lögmennirnir mállýsku hennar og hljómburði dómssalarins um að þeir skildu lítið í hvað hún var að segja.

Í frétt Telegraph segir að dómritarinn Christiana Kyemenu-Caiquo, sem einnig kemur frá Síerra Leóne, hafi að lokum beðið um orðið og bent lögmönnum á að vitnið væri í raun ekkert að tala ensku, heldur mál sem gengur undir nafninu Krio.

Dómari brást þá við með því að biðja dómritarann um að vera „staðgengill“ konunnar í vitnastúku og tók sæti hennar. Segir að Kyemenu-Caiquo hafi hins vegar komið að takmörkuðu gagni í vitnastúkunni þar sem svarið við nánast öllum spurningum sem beindust að konunni voru „ég man það ekki.“

Sjálfskipaði „erkibiskupinn“ Gilbert Deya er sakaður um að hafa nauðgað fjórum konum, auk tveggja kynferðisárása og líkamsárásar. Presturinn, sem kemur upprunalega frá Kenya, rekur Gilbert Deya Ministries, en áætlað er að sóknarbörn kirkjunnar í Bretlandi telji um 36 þúsund manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×