Erlent

Leitaði að fólki sem heitir Hitler

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Kvikmyndagerðarmaðurinn Matt Ogens reynir að varpa ljósi á áhrif nafns á sjálfsmynd fólks í sinni nýjustu heimildarmynd, sem ber titilinn Meet the Hitlers. Í henni sýnir hann líf fólks sem ber sama eftirnafn og Adolf Hitler, eitt þekktasta illmenni sögunnar.

Í myndinni sýnir hann daglegt líf fólks sem ber þetta aldræmda nafn, eins og sjá má í sýnishorni úr myndinni hér að neðan.

Ogens hefur lengi haft í hyggju að gera þessa mynd, en hann þekkti fólk í háskóla sem bar þetta eftirnafn. „Ég fékk jólakort þar sem á stóð „gleðileg jól frá Hitler fjölskylydunni“ og mér þótti eitthvað skrýtið við það. Ég fór að hugsa hvernig það væri að bera þetta nafn. Hvernig áhrif það hefði á manneskju,“ segir hann í samtali við miðilinn Vice.

Ogens segir að það hafi verið erfitt að ná í fólk með eftirnafnið, því það sé oft ekki skráð opinberlega, til að forðast áreiti. Hann segir að margir hafi hafnað því að taka þátt í myndinni, sérstaklega í fyrstu. Hann hafi þurft að sannfæra viðmælendur sína að vera með í myndinni. „Margir héldu að þeir yrðu dæmdir. En markmið myndarinnar er einmitt að dæma ekki fólk eftir því hvaða nafn það ber.“

Einn viðmælandinn þótti afar áhugaverður. Það var hinn 83 ára gamli Jean Hitler, sem ákvað að breyta ekki nafninu sínu, því þetta væri fjölskyldunafn sem hefði verið til lengi. „Ein dóttir hans bauð sig fram til forseta nemendafélags og þurfti frá að hverfa vegna þess að hún var áreitt vegna nafnsins.“

Í myndinni er einnig rætt við nýnasista sem skírði son sinn Adolf Hitler. „Sem kvikmyndagerðarmaður sem gerir heimildarmyndir reyni ég að viðhalda hlutleysi mínu. En ég er líka manneskja,“ segir Ogens og bætir við að nafnið muni líklega hafa áhrif á barnið til lífstíðar. Hann segir að maðurinn sé nýnasisti. „Nafn barnsins er yfirlýsing. Þetta snýst um skoðanir mannsins en ekki um barnið.“

Hér að neðan má sjá sýnishorn úr myndinni Meet the Hitlers en hún verður frumsýnd þann 17. október á kvikmyndahátíðinni í New Orleans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×